Isibless sló á þráðinn til Elku um daginn og spurði hana um daginn og veginn.
Hvað varð til þess að þú byrjaðir í fasteignasölu og hættir öllum afskiptum af hestafjölmiðlum og hestasölu?
Ætli hreinskilna svarið sé ekki að ég hafi verið búin að fá nóg af þessum bransa og langaði að breyta til. Ég hafði glímt við veikindi, var einstæð móðir og þessi störf kröfðust mikils af mér. Ég hef alltaf lagt mikinn metnað í það sem ég tek mér fyrir hendur og þegar við Magnús Benediktsson ákváðum að setja Isibless í loftið á Íslandi var það gert með stæl, umfjöllun um mót og sýningar voru ítarlegar, fjallað um flest stórmót bæði heima og erlendis og ég var vakin og sofin yfir þessu.
Isibless og Hest.is voru eins og börnin mín á þessum tíma og kröfðust mikils tíma. Á svipuðum tíma var ég orðin mikið nýrnaveik og fann að orkan mín fór minnkandi. Ég vissi að ég þurfti að finna mér verkefni sem ég sæi fyrir mér að ég geti sinnt þangað til ég yrði gömul og ég sá ekki fyrir mér framtíðina í þessum bransa. Ég hef alltaf haft mjög gaman að viðskiptum, sölumennsku og almennum samskiptum við fólk og fasteignabransinn hafði alltaf togað í mig. Ég ákvað einn góðan veðurdag, haustið 2015, að skrá mig í löggildingarnámið, var svo heppin að vera boðin vinna hjá Sigurði Tyrfingssyni á Garðatorgi og þáði það, ég fann strax að þetta átti vel við mig og því var ekki aftur snúið. Þeir Siggi, Þóroddur og Steinar sem unnu þá á Garðatorgi tóku mér opnum örmum og ég er Sigga afar þakklát fyrir að hafa gefið mér tækifæri. Eftir tvö ár á Garðatorgi ákvað ég svo að breyða út vængina og spreyta mig á stærri sölu og starfa núna á Domusnova í Kópavogi.
Myndirðu segja að það væri mikill munur á viðskiptum með hesta og fasteignir?
Já og nei. Í grunninn eru þetta viðskipti með vöru og lúta sömu lögmálum. Ég er ennþá í mjög nánum samskiptum við mikið af fólki og það finnst mér það allra skemmtilegasta við starfið. Regluverkið og fagmennskan í kringum fasteignirnar eru hins vegar á öðru plani og þar liggur helsti munurinn. Þegar fólk kaupir og selur heimili eru það oftast stærstu viðskipti lífsins og eins og gefur að skilja með flóknustu samningum sem það gerir. Það eru fáir með reynslu eða í æfingu við fasteignakaup og því reynir mikið á ráðleggingar og þekkingu fasteignasalans, að hann geti leitt viðkomandi í gegnum ferlið. Þetta finnst mér krefjandi, gefandi og skemmtilegt.
Hestamenn eru á hinn bóginn oft miklir sérfræðingar að eigin mati og regluverkið og ramminn utan um viðskipti með hesta er gríðarlega sveigjanlegur (ef ramma skyldi kalla). Þegar ég fór af stað með Hest.is á sínum tíma var hugsunin sú að bæði kaupandi og seljandi gætu haft hag að því að hlutlaus aðili, með hagsmuni beggja í huga, myndi vera milliliður í viðskiptunum. Seljendur hefðu svið eða “platform” til að koma vörunni á framfæri og kaupendur sem voru flestir erlendir gætu fengið ráðleggingu þriðja aðila við að finna rétta hestinn og aðstoða við viðskiptin. Ég er í rauninni mjög stolt af því í dag hvernig þetta gekk og ég eignaðist marga frábæra vini og kunningja á þessum ca 13 árum. Hestarnir sem fóru þarna í gegn skipta mörg hundruðum og ég er enná að fá myndir og fréttir af þeim og eigendum þeirra og þykir alltaf jafn vænt um það.
Hvernig hestamennsku stundarðu núna? Ertu ennþá eitthvað að rækta og ríða út?
Hestamennskan mín í dag er í mýflugumynd miðað við það sem áður var. Ég held að ég hætti samt aldrei að rækta hross, og við Jói (Jóhann G. Jóhannesson) erum bæði mjög stolt af ræktuninni sem varð til á Borg í Þykkvabæ hjá okkur. Ef ég man rétt eru 1. verðlauna hrossin þaðan orðin 17 talsins sem hlýtur að teljast góður árangur, sérstaklega þar sem ábúðin á Borg varði ekki nema í rúm fjögur ár. Ég fæ eitt folald næsta sumar og hestafjöldinn minn er kominn niður fyrir 10 hross, það er árangur útaf fyrir sig.
Ég er svo heppin að hafa kynnst Ragnheiði Samúelsdóttur og fæ að hafa mína hesta hjá henni í Spretti. Hún er að temja fyrir mig eina hryssu núna og ég tek væntanlega inn tvær hryssur fljótlega, allar þrjár ræktaðar af mér. Áhuginn hjá 11 ára syni mínum er líka alltaf að aukast og frábært að geta notið hestamennskunnar með honum. En ég nýt þess vel að hafa hestamennskuna bara sem áhugamál eins og hún er sannarlega orðin í dag.
Ertu að selja mikið fyrir hestamenn, t.d. hesthús eða jarðir?
Mínir uppáhalds viðskiptavinir eru hestamenn, það er alveg klárt. Ég er mjög lánsöm að hestafólk hefur leitað til mín til að aðstoða við kaup og sölu á bæði íbúðarhúsnæðum, hesthúsum, jörðum og landskikum. Ég finn t.d. fyrir vaxandi áhuga fólks á að kaupa landskika fyrir utan höfuðborgina, til að eiga sumarathvarf fyrir hestana sína og fólkið sitt.
Hvernig myndirðu segja að þróun á hesthúsum hafi verið, eru þau að fylgja hækkunum á íbúðarverði?
Ég myndi segja að þau hafi fylgt nokkuð vel almennu húsnæðisverði, sérstaklega nýrri húsin. Hestamenn eru farnir að gera meiri kröfur til hesthúsa og þar af leiðandi er markaðurinn nokkuð tvískiptur. Eldri hús sem hafa ekki verið endurnýjuð samkvæmt nýjum stöðlum hafa setið eftir í verði en nýrri hús á vinsælum svæðum hafa hækkað mikið í verði og eftir þeim er mikil eftirspurn.
Hefurðu eitthvað fylgst með hestamennsku, keppnum og fjölmiðlun síðan þú hættir bransanum?
Ég verð að viðurkenna að ég kúplaði mig algjörlega út þegar ég hætti og er alveg skammarlega lítið inní þessu í dag. Það er svolítið skondið að lifa og hrærast í þessum bransa sem var bæði lifibrauð og áhugamál og hætta svo alveg að spá í þessu, en kannski var það vísbending um að ég hafi verið komin með hálfgert ógeð á sínum tíma, hestaheimurinn getur verið harður og óvæginn bransi. En hver veit nema ég fari að hafa meiri áhuga á keppnum og sýningum á næstu árum.
Einhverjar ánægjulegar minningar úr bransanum sem standa uppúr?
Ég á margar frábærar minningar frá þessum árum með Isibless, HM í Berlín var mér eftirminnilegt þar sem ég tók viðtal við Jóhann Skúlason fyrir forkeppnina í tölti þar sem hann sagðist ætla að ríða í 9,27, mér fannst þetta svo galið markmið að ég dreif mig að hlaða myndbandinu inná netið og birta fyrir forkeppnina og viti menn, þetta stóðst. Samstarf við stórmeistara Þröst Gestsson á Landsmótinu á Hellu var líka eftirminnilegt og mörg dásamleg viðtöl tekin á því móti og mörgum mótum í kjölfarið, metnaðurinn og krafturinn í hámarki og hrein skemmtun að vinna með Þresti.
[video1]
[video2]
Ég var fram að því búin að sjá um allt ein, taka myndbönd, myndir, skrifa fréttir og úrslit og það var mikil innspýting að fá hann í lið með okkur. En jú, það eru margar skemmtilegar minningar bæði varðandi fréttamennskuna og hestasöluna og eflaust efni í heila bók að rifja það allt upp.
Eitthvað að lokum?
Mér var sagt áður en ég byrjaði í fasteignabransanum að sá heimur væri grjótharður og óvæginn. Ég var hins vegar fljót að komast að því að eftir 13 ára reynslu af hestaviðskiptum að fasteignabransinn er dans á rósum, svo það má segja að ég hafi verið vel undirbúin.
Að lokum langar mig að bjóða alla hestamenn velkomna að hafa samband ef þeim vantar aðstoð við kaup eða sölu á fasteignum.
Elka Guðmundsdóttir
elka@domusnova.is
s. 863-8813
Ég var fram að því búin að sjá um allt ein, taka myndbönd, myndir, skrifa fréttir og úrslit og það var mikil innspýting að fá hann í lið með okkur. En jú, það eru margar skemmtilegar minningar bæði varðandi fréttamennskuna og hestasöluna og eflaust efni í heila bók að rifja það allt upp.
Eitthvað að lokum?
Mér var sagt áður en ég byrjaði í fasteignabransanum að sá heimur væri grjótharður og óvæginn. Ég var hins vegar fljót að komast að því að eftir 13 ára reynslu af hestaviðskiptum að fasteignabransinn er dans á rósum, svo það má segja að ég hafi verið vel undirbúin.
Að lokum langar mig að bjóða alla hestamenn velkomna að hafa samband ef þeim vantar aðstoð við kaup eða sölu á fasteignum.
Elka Guðmundsdóttir
elka@domusnova.is
s. 863-8813