Spennandi trippi á fjórða vetur
Það er áhugavert að sjá að 10 efstu hestarnir og 10 efstu hryssurnar í kynbótamati eru öll undan einungis 5 stóðhestum, þeim Ský frá Skálakoti, Arion frá Eystra-Fróðholti, Spuna frá Vesturkoti, Konsert frá Hofi og Óm frá Kvistum.
Með hæsta kynbótamatið í hópi hestanna er Naskur frá Hólum með 129 stig. Hann er undan Ský frá Skálakoti og Vilmundardótturinni Völvu frá Hólum. Er hann jafnframt eini geldingurinn í hópnum, en allir hinir hestarnir á listanum eru skráðir stóðhestar. Naskur er ræktaður af og í eigu Hólaskóla. Þorsteinn Björnsson, kennari við Hestafræðideildina á Hólum, segir Nask vera stóran og traustan efnishest sem gaman verður að sjá hvernig þróast áfram.
Þormar frá Prestsbæ kemur þar á eftir með 127 stig en hann er undan Konsert frá Hofi og Þoku frá Hólum, sem gerir hann sammæðra fyrrum heimsmethafa kynbótahrossa, Þórálfi frá Prestsbæ. Inga og Ingar Jensen eru eigendur hans og ræktendur. Þormar er afar litfagur, leirljósblesóttur og segir Þórarinn Eymundsson, þjálfari Þormars að það sé eitthvað við hann sem á eflaust eftir að heilla marga í framtíðinni. ,,Tamningin hefur gengið mjög vel með Þormar. Brokkið er ríkjandi með fallegu skrefi en það er einnig stutt í gang. Hann er með einstaklega léttbyggður, með fallegan háls og yfirvegaður efnishestur“ segir Þórarinn.
Arions og Álfadísarsonurinn Svartálfur frá Syðri-Gegnishólum er jafnframt á listanum með 125 í kynbótamati. Eru eflaust margir spenntir að sjá hvað verður úr þeim fola, enda Álfadís frá Selfossi í hópu bestu kynbótahryssna sem Ísland hefur alið og Arion frá Eystra-Fróðholti svo nýlega fallinn frá, sem var feikna vinsæll kynbótahestur.
Olil Amble, eigandi og ræktandi Svartálfs, segist hafa séð til hans í gegnum árin sem lofi góðu. Það er varla við öðru að búast en sá foli eigi eftir að koma vel út, en Álfadís á átta 1. verðlauna syni sem hafa einnig reynst afburða ræktunarhestar.
10 efstu hestarnir í kynbótamati fæddir 2015
Fæðingarnr. Nafn Uppruni Faðir Móðir Kynbótamat
IS2015158302 Naskur frá Hólum Skýr frá Skálakoti Völva frá Hólum 129 Geldingur
IS2015101166 Þormar frá Prestsbæ Konsert frá Hofi Þoka frá Hólum 127
IS2015182060 Hraunar frá Varmá Spuni frá Vesturkoti Brák frá Hrauni 126
IS2015181912 Gandi frá Rauðalæk Konsert frá Hofi Garún frá Árbæ 126
IS2015158097 Vigri frá Bæ Arion frá Eystra-Fróðholti Þrift frá Hólum 126
IS2015187660 Svartálfur frá Syðri-Gegnishólum Arion frá Eystra-Fróðholti Álfadís frá Selfossi 125
IS2015184890 Börkur frá Strandarhjáleigu Konsert frá Hofi Bylgja frá Strandarhjáleigu 125
IS2015167175 Sjarmi frá Sauðanesi Spuni frá Vesturkoti Sóllilja frá Sauðanesi 125
IS2015157003 Forseti frá Sauðárkróki Skýr frá Skálakoti Grund frá Sauðárkróki 125
IS2015101051 Máni frá Lerkiholti Spuni frá Vesturkoti María frá Feti 125
Efsta hryssan er Álfamær frá Prestsbæ með 130 stig en hún er undan Spuna frá Vesturkoti og Þóru frá Prestsbæ, Orra- og Þokudóttur. Inga og Ingar Jensen eru eigendur og ræktendur hennar og líkt og flest hross í þeirra eigu er hún í þjálfun hjá Þórarni Eymundssyni.
Segir Þórarinn Álfamær vera alveg einstaklega gæfa; ,,Hún var forvitin allan uppvöxtinn. Hún er orðin reiðfær og fer um á öllum gangi en brokkar mest með mjög spyrnugóðu og löngu skrefi. Fetið verður afbragðs gangtegund trúi ég. Mér finnst einnig eins og að viljinn muni koma fljótt enda er hún einstaklega sterkleg miðað við aldur“.
Þórarinn kemur ekki að tómum kofanum varðandi hestakost í vetur, en hann er einnig eigandi annarrar hryssu á listanum, Silkisif frá Saurbæ. Er hún undan Arion frá Eystra-Fróðholti og Vilmundardótturinni Brigðu frá Brautarholti með 126 stig í kynbótamati. Silkisif er mjög lík móður sinni að mati Þórarinns; ,,Hún er með mjög létta og fíngerða byggingu, með mjög hátt settan háls. Fallegt fótatak og gangur laflaus og mjúkur, rýmislegur. Viljinn strax kominn og trúlega þarf ég að passa að hún geri ekki of mikið og fari framúr sér“.
Jafnframt er dóttur Hamingju frá Hellubæ og Konserts frá Hofi á listanum, ónefnd frá Hellubæ. Er hún í eigi Olil Amble og Bergs Jónssonar á Syðri-Gegnishólum, en þau fengu að halda Hamingju eftir LM2014. Flestir hestamenn ættu að muna eftir Hamingju frá Hellubæ, en hún vann 4 vetra flokk hryssna á Landsmóti 2014.
Það verður einstaklega gaman að fylgjast með á næstu árum hvaða hross á þessum lista muni koma til með að sýna sig og sanna og verða íslenskri hrossarækt til framdráttar í framtíðinni.
10 efstu hryssurnar í kynbótamati fæddar 2015
Fæðingarnr. Nafn Uppruni Faðir Móðir Kynbótamat
IS2015201167 Álfamær frá Prestsbæ Spuni frá Vesturkoti Þóra frá Prestsbæ 130
IS2015258301 Íshildur frá Hólum Skýr frá Skálakoti Storð frá Hólum 128
IS2015287640 Brenna frá Laugarbökkum Spuni frá Vesturkoti Blökk frá Laugarbökkum 126
IS2015257781 Silkisif frá Saurbæ Arion frá Eystra-Fróðholti Brigða frá Brautarholti 126
IS2015235941 Nn frá Hellubæ Konsert frá Hofi Hamingja frá Hellubæ 126
IS2015288670 Harpa frá Ljósafossi Ómur frá Kvistum Hansa frá Ljósafossi 125
IS2015284980 Sara frá Vindási Spuni frá Vesturkoti Gjöf frá Vindási 125
IS2015284871 Dimma frá Hjarðartúni Spuni frá Vesturkoti Dögg frá Breiðholti, Gbr. 125
IS2015237726 Eik frá Miðhrauni Spuni frá Vesturkoti Álfadrottning frá Austurkoti 125
IS2015287660 Nn frá Syðri-Gegnishólum Konsert frá Hofi Álfastjarna frá Syðri-Gegnishólum 124