Website-Icon EYJA

Otur frá Sauðárkróki allur

Hann átti farsælan feril hér á landi sem ræktunarhestur en var svo fluttur út til Þýskalands 18 vetra gamall þar sem hann dvaldi að ræktunarbúinu Pfaffenbuck hjá Reisinger fjölskyldunni. Otur varð hvorki meira né minna en 36 ára gamall.

IS1982151001 – Otur frá Sauðárkróki fæddist Sveini Guðmundssyni á Sauðárkróki árið 1982. Að baki hans standa sterkar Sauðárkróksættir, en hann var undan Hervari og Hrafnkötlu frá sama bæ, sem bæði eru komin af áhrifamestu ræktunarmeri landsins, Síðu frá Sauðárkróki.

Otur kom fyrst fram 4 vetra gamall í Gunnarsholti um vorið 1986 en á Landsmóti á Gaddstaðaflötum seinna um sumarið. Otur fór ekki varhluta af gróusögunum þegar hann var á hátindi síns ferils sem stóðhestur. Orðrómurinn gustaði í kringum hann, sem var í takt við atgervi hans og útgeislun. Mörgum þótti nóg um orkuna í þessum viljagammi og fjörhesti. Á hans tamingaárum gengu þær sögur að Otur hefði verið hrekkjóttur og því víðsjárverður til undaneldis. Einar Öder Magnússon tamdi Otur á Stóðhestastöðinni í Gunnarsholti þegar hann var á fjórða vetur og haft var eftir honum í viðtali í Morgunblaðinu árið 2000 að hann gæti rétt tíu fingur upp til Guðs því til staðfestingar að hrekkjóttur hafi hann ekki verið.

Einar Öder lýsti Otri sem ,,þægum en mjög næmum og kvikum fjörhesti. Viljinn var kraumandi frá byrjun, töltið alla tíð gott og öruggt með skeiðið eðlislægt en ekki alltaf hægt að ganga að brokkinu vísu. Hann var frá fyrstu stundu sem farið var á bak honum þessi mikli höfðingi og fannst mér ég alla tíð sitja fullþroska hest með sterkan persónuleika en ekki trippi á fjórða vetur“.

Einar sýndi Otur á landsmótinu á Gaddstaðaflötum 1986 og stóð hann þar efstur í flokki fjögurra vetra stóðhesta. Vakti hann þá mikla athygli fyrir mikinn vilja og kraft. Eiríkur Guðmundsson tók þá við þjálfun Oturs og hreifst hann einnig af hestinum. Einar Öder hafði jafnframt orð á því að Eiríki hefði farist þjálfun Oturs vel úr hendi, þar sem auðvelt hefði verið að klúðra hestinum og gera hann að yfirspenntum rokuhesti.

Otur var sýndur í sinn hæsta dóm á Landsmóti 1990 á Vindheimamelum og endaði þriðji í flokki 7 vetra og eldri stóðhesta, á eftir þeim Kolfinni frá Kjarnholtum og Gassa frá Vorsabæ. Þó hann hafi þar hlotið sinn besta dóm fannst Sveini Guðmundssyni, eiganda og ræktanda hestsins, það vissulega hafa verið vonbrigði að klárinn skyldi ekki hafa staðið efstur því þetta væri hestur sem hefði snert sig hvað mest af þeim hestum sem hann hefði komið á bak á. ,,Ég hef aldrei fyrr né síðar fundið slíkt fjör með þessari dásamlegu eftirgjöf ef svo má að orði komast,“ sagði Sveinn.

Otur hlaut 9.5 fyrir skeið og 9 fyrir vilja og fegurð í reið, hæfileikaeinkunn upp á 8.69 og aðaleinkunn upp á 8.37. Sköpulagseinkunn hans var 8.05. Ekki er hægt að segja að Otur hafi þótt vera sköpulagsbætir þó finna mætti undantekningar. Hann hafi þó gefið einstaklega góða hófa sem flaggskipið í afkvæmaflotanum, Orri frá Þúfu, gaf í ríkum mæli áfram til sinna afkvæma. Einnig þótti Otur gefa góða háls- og skrokkmýkt með burð í baki.

Otur var tvisvar sýndur til 1. verðlauna fyrir afkvæmi. Fyrst á Fjórðungsmótinu á Vindheimamelum árið 1993 og svo aftur ári seinna á Landsmóti á Gaddstaðaflötum þar sem til stóð að hann tæki við heiðursverðlaunum. Breytingar hjá Bændasamtökum Íslands á kynbótamatinu og nokkur léleg afkvæmi sem mættu til dóms um vorið gerðu þann draum hins vegar að engu og náði Otur ekki lágmörkunum til að hljóta heiðursverðlaun og var hann því aftur sýndur með afkvæmum í 1. verðlaun. Góður árangur afkvæma hans á mótinu, þá einna helst sigur Orra frá Þúfu í B-flokki gæðinga, urðu þess þó valdandi að orðstír hans fór vaxandi og menn fóru að sammælast meira um kynbótagildi hans en áður. Hann var þó alltaf vel notaður stóðhestur hér á landi, var pantaður af hrossaræktarfélögum og átti afkvæmi í flestum landshlutum.

Það er óhætt að segja að hófaspor Oturs hafi haft afar djúp áhrif á íslenska hrossarækt eins og við þekkjum hana í dag, enda sonur hans, Orri frá Þúfu sá hestur sem hefur haft hvað mest áhrif í ræktun íslenska hestsins frá lokum 20. aldar. Otur náði einnig að hafa víðtæk áhrif á þeim 18 árum sínum í Þýskalandi og skilur eftir sig afkvæmi út um alla Evrópu sem munu án efa koma til með að halda heiðri hans á lofti um ókomna tíð.
Lesa má stórskemmtilega umfjöllun Morgunblaðins um sölu og útflutning á Otri frá árinu 2000 hér

10 hæst dæmdu afkvæmi Oturs : 

IS númer   Nafn   Sköpulag   Hæfileikar   Aðaleinkunn

DE2002134228 – Teigur vom Kronshof – 8.31 – 8.84 – 8.63
IS2001135008 – Þeyr frá Akranesi – 8.30 – 8.72 – 8.55
SE1991104448 – Draumur från Stallgården – 8.10 – 8.64 – 8.42
IS2000165490 – Krókur frá Efri-Rauðalæk – 8.15 – 8.53 – 8.38
IS1987187507 – Agni frá Torfastöðum – 8.06 – 8.66 – 8.36
IS1986186055 – Orri frá Þúfu – 8.08 – 8.61 – 8.34
IS1995286102 – Rebekka frá Kirkjubæ – 8.16 – 8.45 – 8.34
IS1997186541 – Rökkvi frá Hárlaugsstöðum – 8.13 – 8.48 – 8.34
DE2002134775 – Tango vom Kronshof – 8.09 – 8.49 – 8.33
IS1986187020 – Gammur frá Tóftum – 8.13 – 8.46 – 8.33
Die mobile Version verlassen