Líflandsfræðslan: Opinn sniðgangur
Mikilvægi fimiþjálfunar
Fimiþjálfun er hugtak sem notað er yfir þá þjálfun hestsins þar sem fimiæfingar eru notaðar til að liðka og styrkja hestinn, með það fyrir augum að fá hann til að beita líkama sínum sem réttast í þeirri vinnu sem við biðjum hann um. Fimiþjálfun er æskileg fyrir alla hesta, óháð því hvert hlutverk þeirra er enda stuðlar rétt líkamsbeiting að betri líðan og endingu reiðhestsins. Fimiæfingar geta bæði verið liðkandi eða styrkjandi en opinn sniðgangur er bæði í senn.
Hvað er opinn sniðgangur?
Opinn sniðgangur er jafnan kallaður ,,shoulder-in” á ensku. Réttur opinn sniðgangur er þegar hesturinn er stilltur og sveigður inn að miðju reiðvallarins jafnt í gegnum allan skrokkinn, ferðast á þrem sporaslóðum og gengur í gagnstæða átt við stillingu háls og höfuðs. Afturfæturnir eiga að ganga beint áfram en framfæturnir til hliðar. Ytri framfótur gengur í sömu sporaslóð og innri afturfótur hestsins og þriðju sporaslóðina myndar innri framfótur hestsins sem ,,krossar” yfir ytri framfótinn.
Tilgangur
Æfingin eykur fyrst og fremst sveigjanleika hestsins, með því að mýkja hliðar hans, jafna út misstyrk og stuðla að því að hann verði samspora. Hún er þannig grundvöllurinn fyrir margt sem fylgir í kjölfarið við þjálfun hestsins, s.s. söfnun. Í opnun sniðgangi þarf hesturinn að lengja á sér ytri hliðina og stíga betur inn undir sig með innri afturfæti fram að ytri bóg (taum), sem er byrjunin á söfnun. Æfingin gerir hestinn næmari fyrir ábendingum knapans og bætir þannig stjórn á bógum hestsins.
Æskilegar æfingar til undirbúnings
Að víkja undan fæti, t.d. á baug, framfótasnúningur og krossgangur eru dæmi um liðkandi æfingar sem eru nauðsynlegur undirbúningur fyrir opinn sniðgangur. Æskilegt er að hesturinn kunni að víkja undan fæti (og písk frá jörðu) bæði að framan og aftan áður en hann er beðinn um að framkvæma opinn sniðgang. Knapinn þarf þannig að geta beðið hestinn um að færa fram- og afturhlutann óháð hvorum öðrum til þess að æfingin gangi upp. Krossgangur er afar heppileg æfing til undirbúnings sem eykur skilning hestsins á samspili ábendinga.
Ábendingar
Rétt eins og með flestar æfingar, er best að kenna hestinum æfinguna skref frá skrefi fyrst frá jörðu. Til að byrja með er best að notast við vegginn sem stuðning, en þegar hesturinn er farinn að skilja betur ábendingarnar er hægt að ríða opinn sniðgang hvar sem er, t.d á miðju vallarins, út á túni og út á reiðvegi.
Knapinn sest í baugásetu til að gefa hestinum til kynna að verið sé að biðja um sveigju, þar sem meiri þyngd færist á innra setbein knapans. Hesturinn á að sveigja sig um innri fót knapans, sem er staðsettur við gjörðina og hvetur einnig innri afturfót hestins að stíga betur inn undir sig. Ytri fótur knapans hvetur hestinn áfram. Innri taumurinn biður hestinn um að sveigja sig á meðan ytri taumurinn segir til um hversu mikil sveigjan á að vera. Athugið samt að innri taumurinn á ekki að þvinga hestinn til að sveigja sig. Góður prófsteinn á hvort hesturinn sé sáttur og rétt sveigður er að athuga hvort knapinn geti sleppt innri taumnum í skamma stund án þess að hesturinn verði strax beinn.
Dæmi um útfærslu
Knapinn ríður hestinum skammhliðina og í horninu áður en langhliðin byrjar ríður knapinn einn lítinn 6 metra baug, til að fá æskilega sveigju í allan skrokk hestsins. Þegar hesturinn er aftur samhliða veggnum biður knapinn hann með innri fætinum um að fara áfram í stað þess að halda áfram á hringnum. Þannig er knapinn að leggja verkefnið þannig upp að líklegt er að það takist. Eftir nokkur góð skref er umbunin falin í því að fara aftur inn á lítinn 6 metra baug eða leyfa hestinum að verða beinn aftur.
Gallar
Ef hesturinn er ekki rétt sveigður getur hann endað á fjórum sporaslóðum, sem bendir til þess að sveigjan í skrokknum er ekki næg og að hesturinn sé of beinn. Þá getur hann einnig krossað að aftan og verið í raun að ganga krossgang en ekki opinn sniðgang. Knapinn getur einnig lent í því að reiða of mikið á innri tauminn (en ekki innri fótinn) til að sveigja hestinn sem leiðir til þess að hesturinn spennir vöðvana í innri hliðinni á móti taumtakinu og verður stífur. Einnig getur hesturinn ofsveigt hálsinn án þess að sveigja skrokkinn, sem bendir til þess að knapinn sé ekki með næga stjórn á ytri hlið hestsins.
Það margborgar sig að notast við fimiæfingar í þjálfuninni, enda er fimiþjálfun til þess fallin að styrkja hestinn og gera hann að betri íþróttamanni. Öll viljum við sem bestu endinguna á þarfasta félaganum svo góð og markviss þjálfun er besta leiðin til að láta hesti og knapa líða betur.