Website-Icon EYJA

Líflandsfræðslan: Krossgangur


Hvað er krossgangur?
Í krossgangi á hesturinn að stíga bæði fram og til hliðar á sama tíma, með því að krossa með ytri fram- og afturfæti framyfir þá innri um leið. Hann á að vera nokkuð beinn í skrokknum en hann má vera stilltur í hnakka í gagnstæða átt við þá sem hann er að fara.

Tilgangur
Krossgangur er fyrst og fremst liðkandi æfing og er gjarnan notuð til að kenna hestinum að víkja undan þrýstingi frá fæti og hvernig hann á að bregðast við samspili ábendinga. Hún er afar verðmæt æfing til þess að mýkja stífa hesta, leiðrétta misstyrk og til undirbúnings fyrir erfiðari æfingar. Hægt er að framkvæma krossgang á öllum gangtegundum nema skeiði, en oftast nær er hún framkvæmd á feti, brokki eða tölti.

Krossgangur er ekki síður mikilvæg æfing fyrir knapann, þar sem æfingin kennir knapanum að aðskilja handa- og fótaábendingar og nota þær óháð hvor annarri. Hún er því mikilvæg æfing fyrir bæði knapa og hest, þar sem án skilnings á krossgangi eru engar forsendur fyrir erfiðari æfingum.

Æskilegar æfingar til undirbúnings
Nauðsynlegt er að hesturinn kannist við að víkja undan þrýstingi frá fæti knapans. Það er því afar gagnlegt að fara vel í gegnum það að færa fram- og afturfætur hestsins um 1-2 skref, t.d. fyrst frá jörðu þar sem pískurinn er notaður sem ábending og færa það svo með sér upp í hnakkinn þar sem fæturnir biðja hestinn um að færa sig. Mikilvægt er að muna að knapinn á að geta fært fram- og afturfætur hestsins óháð hvor annarri. Til að aðskilja þetta fyrir hestinum er því oft gott fyrir knapann að færa innri fót sinn framan við gjörð þegar beðið er um að færa framfætur hestsins en örlítið aftan við gjörð þegar knapinn biður hestinn um að færa afturfæturnar. Þannig er þetta gert auðskiljanlegra fyrir hestinum og knapinn hefur nákvæmari stjórn á fótum hestsins.

Ábendingar og útfærsla
Innri fótur knapans biður hestinn um að færa sig undan þeim fæti og ganga út að veggnum á meðan ytri fóturinn passar það að hesturinn fari ekki of mikið til hliðar heldur gangi einnig fram. Innri taumurinn stillir hestinn örlítið inn á meðan ytri taumurinn ,,tekur við” hestinum. Einnig er hægt að nota ytri tauminn leiðandi ef hesturinn vill færa afturhlutann á undan. Gott er fyrir knapann að hugsa um að ríða hestinum frá innri fæti að ytri taum.

Algengasta leiðin til að framkvæma krossgang er að ríða fram fjórðungarlínuna frá skammhlið, svo hesturinn sé samhliða langhliðinni og ganga svo krossgang í átt að veggnum. Þessi útfærsla gefur knapanum færi á að átta sig á því hversu jafnt hann færist fram og til hliðar með því að miða sig við bókstafina á vellinum. Þegar kominn er meiri skilningur hjá bæði knapa og hesti er svo hægt að færa hestinn frá veggnum og að fjórðungalínunni.

Einnig má ríða krossgang svo hesturinn snúi að veggnum og myndi um það bil 30 gráðu horn við vegginn. Það hjálpar oft með hesta sem sækja meira í að stíga fram en til hliðar, enda veggurinn sem veldur því að hann getur ekki farið of mikið fram, en getur aftur á móti haft þau áhrif með rólegri hesta að þeir tapi framhugsun í æfingunni.

Gallar
Ef krossgangur er ekki riðinn rétt getur það leitt til þess að hesturinn verði enn meira missterkur eða hann tapi framhugsun. Það er því mikilvægt að kenna hestinum æfinguna stigvaxandi og að muna að hesturinn á alltaf að krossa yfir með ytri fram- og afturfæti framyfir þá innri, svo hesturinn er að ganga jafn mikið fram og til hliðar. Ef hesturinn gengur eingöngu til hliðar glötum við framhugsuninni í æfingunni, sem þá þjónar ekki tilgangi sínum.

Að lokum, þá er gott að minna á að það margborgar sig að notast við fimiæfingar í þjálfuninni, enda er fimiþjálfun til þess fallin að styrkja hestinn og gera hann að betri íþróttamanni. Öll viljum við sem bestu endinguna á þarfasta félaganum svo góð og markviss þjálfun er besta leiðin til að láta hesti og knapa líða betur.
Die mobile Version verlassen