Líflandsfræðslan: Fastar hildir



Þegar talað er um hildir, er verið að eiga við fylgjuna og fósturbelgina sem hafa umlukið fóstrið á meðgöngunni. Tilgangur þess er að næra fóstrið og fjarlægja úrgangsefni á meðan á meðgöngunni stendur.

Einkenni
Undir eðlilegum kringumstæðum gengur köstun frekar hratt fyrir sig og tekur því alla jafna ekki langa tíma. Þegar hríðir og fæðingin sjálf hafa átt sér stað, sem tekur oft ekki nema 1-6 klukkustundir, tekur við fæðing hildanna. Það gerist við að hríðasamdrættir legins halda áfram eftir fæðingu folaldsins og þrýsta hildunum út. Hryssan getur sýnt merki um óþægindi og jafnvel sársauka, svo sem að kasta sér niður og rembast eða stynja.

Venjulega koma hildirnar innan 1-3 klukkustunda frá því folaldið fæðist, en ef það fer að verða mikið lengra er talað um fastar hildir. Það kemur fyrir að hildirnar komi ekki fyrr en eftir 8-12 klukkustundir án þess að hryssan verði veik og losna jafnvel sjálfar, en betra er að hafa varann á og kalla til dýralækni ef liðnar eru meira en 3 klst frá köstun.

Meðhöndlun
Ef hildirnar eru fastar í lengri tíma getur slímhúðin í leginu hlotið varanlegan skaða. Hryssan getur fengið legbólgu og mögulega hófsperru í kjölfarið. Æskilegast er því að kalla til dýralækni sem metur hvernig meðhöndla skuli hryssuna. Oft er legið skolað, hryssunni gefið samdráttar- og bólgueyðandi lyf og jafnvel sýklalyf ef þörf er á.

Orsakir
Afhverju hildirnar eru fastar í sumum tilfellum er ekki vitað en ástandið er oft talið vera í tengslum við sýkingar, erfiða köstun, þvagfærasýkingar og óeðlilegan blóðþrýsting. Hryssur sem hafa lent í því að vera með fastar hildir virðast vera líklegar til að lenda í því aftur. Einnig er talið að hækkandi aldur hryssunnar spili inn í, auk skyldleikaræktarstuðuls folaldsins. Erlendis virðast sérstaklega frísneskar hryssur vera með tilhneigingu til að lenda í þessu ástandi. Hér á landi er jafnvel talið að selenskortur sé einn orsakaþátturinn, en víða er lítið selen í jarðvegi.

Mikilvægt er því að huga að því að fylfullar hryssur séu með góðan aðgang að steinefnum og vítamínum alla meðgönguna, ásamt því að fylgjast vel með hryssunni um það leyti sem hún á að kasta, svo hægt sé að grípa inn í ef eitthvað reynist óeðlilegt.