Innlendar fréttir
KategorieLM: Þúfur kosið best ræktunarbúa á LM
Sýningar ræktunarbúa fóru fram í gærkvöldi þar sem 11 bú komu fram með hross úr þeirra ræktun. Er það einkar skemmtileg leið fyrir ræktunarbú til að sýna afrakstur sinnar ræktunar og sjá aðra. Áhorfendur gátu svo kosið um besta ræktunarbúið en það var Þúfur í Skagafirði sem vann þá kosningu. Þau komu því aftur fram í kvöld, enda ekki leiðinlegt að sjá slíka kostagripi oftar en einu sinni.
LM: Ragnar og Kamban magnaðir!
Ragnar Snær Viðarsson sýndi hvers hann er megnugur þegar hann sigraði B-úrslitin í barnaflokki fyrr í dag á hinum einstaka Kamban frá Húsavík. Þeir félagar áttu frábæra sýningu sem tryggði þeim 8,73 í einkunn og sæti í A-úrslitunum.
LM: Glúmur frá Dallandi sigraði í flokki stóðhesta 7 vetra og eldri
Glúmur frá Dallandi gerði sér lítið fyrir og sigraði flokk stóðhesta 7 vetra og eldri á Landsmótinu í dag. Hlaut hann 8,80 fyrir kosti, 8,73 fyrir sköpulag og 8,77 í aðaleinkunn. Sýnandi Glúms var Halldór Guðjónsson. Næstir á eftir honum urðu svo tveir synir Kiljans frá Steinnesi, þeir Rauðskeggur frá Kjarnholtum 1 og Draupnir frá Stuðlum.
LM: Askja frá Efstu-Grund hæsta 4 vetra hryssan
Skýsdóttirin Askja frá Efstu-Grund var hástökkvari 4 vetra flokks hryssna í gær þegar hún hækkaði sig um rúmar 30 kommur á yfirliti og skaut sér í 1. sætið með 8.38 í aðaleinkunn og 8.55 fyrir hæfileika. Sigurrós frá Stuðlum, sem var efst fyrir yfirlit, endaði í 2. sæti með 8.31 í aðaleinkunn og 8.37 fyrir hæfileika. Þriðja var Sýn frá Hólum með 8.30 í aðaleinkunn og 8.14 fyrir hæfileika.
LM: Kári og Þytur sigruðu B-úrslitin
Fyrr í dag fóru fram B-úrslit í unglingaflokki þar sem margir af okkar efnilegustu knöpum sýndu snilli sína. Úrslitin voru gríðarlega jöfn og spennandi, t.d. voru það ekki nema 4 kommur sem skildu að 1. og 5. sætið. Það fór þó svo eftir harða keppni að Kári Kristinsson sigraði úrslitin á hinum flugrúma Þyt frá Gegnishólaparti og verður gaman að sjá þá í A-úrslitunum.
Líflandsskutlan í verslun Líflands og Top Reiter!
Lífland býður upp á fríar ferðir með Líflandsskutlunni frá Landsmóti í verslunina á Lynghálsi og í verslun Top Reiter í Ögurhvarfi. Rútan er staðsett við gönguleiðina á milli markaðssvæðisins og kynbótabrautarinnar.
LM: Þrumufleygur áfram í A-úrslit
B-úrslit í B-flokki fóru fram í morgun í hæglætisveðri þar sem Þrumufleygur frá Álfhólum og Viðar Ingólfsson fóru með sigur af hólmi með 8.79. Litlu munaði á þeim næsta hesti, sem var Arna frá Skipaskaga og knapi hennar, Sigurður Sigurðarson en þau hlutu 8.78. Hnoss frá Kolsholti og Helgi Þór Guðjónsson, sem komu efst inn í B-úrslit urðu að láta sér 11. sæti lynda.