LM: Frami sýnir hvers hann er megnugur
Feiknasterkum A-úrslitum í B-flokki lauk nú rétt í þessu og var mjótt á mununum þar sem efstu tveir hestarnir fóru yfir 9,0. Frami frá Ketilsstöðum og Elin Holst settu tóninn strax á hægu tölti þar sem þau höfðu mikla yfirburði og héldu þau forystunni allan tímann þó svo að Nökkvi og Jakob hafi sótt hart að þeim á bæði brokki og yfirferð. Þriðju voru svo þau Hátíð frá Forsæti og Jón Páll Sveinsson
LM: Bríet og Kolfinnur með stjörnusýningu
Bríet Guðmundsdóttir og Kolfinnur frá Efri-Gegnishólum stóðu sig feikna vel í A-úrslitum ungmenna fyrr í dag. Var sýning þeirra einstaklega jöfn og áferðarfalleg en góð reiðmennska og mikil afköst á gangi skiluðu þeim 8,83 í einkunn og fyrsta sætinu. Næstir á eftir þeim urðu svo sigurvegarar B-úrslitanna, þeir Þorgeir Ólafsson og Hlynur frá Haukatungu Syðri 1 með einkunnina 8,67.
LM: Konráð Valur og Kjarkur óstöðvandi
Konráð Valur og Kjarkur frá Árbæjarhjáleigu II fóru mikinn í kvöld, sem er þeirra von og vísa og sigruðu þeir 100 metra flugskeiðið. Jafnframt er búið að staðfesta heimsmet þeirra félaga í 250 m skeiði sem þeir settu í gærkvöldi og eru þeir því tvöfaldir Landsmótssigurvegarar í skeiði!
LM: Þúfur kosið best ræktunarbúa á LM
Sýningar ræktunarbúa fóru fram í gærkvöldi þar sem 11 bú komu fram með hross úr þeirra ræktun. Er það einkar skemmtileg leið fyrir ræktunarbú til að sýna afrakstur sinnar ræktunar og sjá aðra. Áhorfendur gátu svo kosið um besta ræktunarbúið en það var Þúfur í Skagafirði sem vann þá kosningu. Þau komu því aftur fram í kvöld, enda ekki leiðinlegt að sjá slíka kostagripi oftar en einu sinni.
LM: Tveir heimsmethafar í 6 vetra flokki stóðhesta
Flokkur 6 vetra var í einu orði sagt magnaður, tveir heimsmethafar mættu til leiks, þeir Þráinn frá Flagbjarnarholti og Kveikur frá Stangarlæk 1 og stóðu þeir heldur betur undir væntingum. Þráinn sigraði flokkinn með 8.92 í aðaleinkunn en Kveikur var næstur á eftir honum með 8.76 í aðaleinkunn, klárhestur með 10 fyrir tölt og vilja og geðslag.
LM: Myndband frá hápunktum föstudagsins
Landsmótið í Reykjavík hefur gengið frábærlega hingað til, fram hafa komið einstakir knapar og gæðingar, heimsmet hafa verið slegin bæði í skeiði og kynbótadómi og tveir knapar riðu sig í hæstu einkunn sem gefin hefur verið í forkeppni í tölti T1 á Íslandi. Ekki má heldur gleyma ungu knöpunum sem hafa staðið sig frábærlega á mótinu og gefa þeim fullorðnu ekkert eftir.
LM: Roði frá Lyngholti upp í A-úrslit
B-úrslit í A-flokki gæðinga fóru fram núna rétt í þessu og fóru leikar svo að þeir Roði frá Lyngholti sigruðu með einkunnina 8,76. Næstir á eftir þeim voru þeir Óskahringur frá Miðási og Viðar Ingólfsson með einkunnina 8,72 og þriðju voru svo þeir Asi frá Reyrhaga og Guðmundur Björgvinsson með einkunnina 8,68.
LM: Hlynur og Þorgeir magnaðir í B-úrslitunum
Nú rétt í þessu voru að klárast B-úrslit í flokki ungmenna. Spennan var mikil en þó fóru leikar svo að þeir Hlynur frá Haukatungu Syðri 1 og Þorgeir Ólafsson sigruðu nokkuð örugglega með einkunnina 8,76. Næst á eftir þeim urðu Eldur frá Torfunesi og Birta Ingadóttir með einkunnina 8,66. Við fáum því að sjá þá félaga Hlyn og Þorgeir í A-úrslitunum á morgun.
LM: Adrían frá Garðshorni á Þelamörk sigraði flokk 5 vetra stóðhesta
Adrían frá Garðshorni á Þelamörk átti frábæran dag í gær, hækkaði sig frá því í forskoðun og fór þar með yfir Spaða frá Stuðlum sem stóð efstur fyrir yfirlit. Hlaut Adrían 8.63 fyrir kosti, sköpulag og í aðaleinkunn. Þór frá Torfunesi kom svo fast á hæla honum með einkunnina 8.62 í aðaleinkunn og var Spaði frá Stuðlum þriðji með 8.55 í aðaleinkunn.
LM: Heimsmetið í 250m skeiðinu marg slegið!
Heimsmetið í 250m skeiði var slegið nokkrum sinnum í gærkvöldi en nýjasta heimsmetið settu snillingarnir Konráð Valur Sveinsson og Kjarkur frá Árbæjarhjáleigu II en þeir fóru á tímanum 21,15 í síðasta spretti sínum á mótinu.
LM: Siguroddur og Steggur upp í A-úrslit
Siguroddur Pétursson og Steggur frá Hrísdal áttu frábæra sýningu í sterkum B-úrslitum í tölti í gær og sigruðu þeir með einkunnina 8.28. Var sérstaklega skemmtilegt að fylgjast með þeim félögum í úrslitunum en þeir sýndu fram á mikil afköst og gæði á tölti en á milli atriða fetaði hesturinn slakur af mikilli yfirvegun, greinilegt að þarna er gæðingur í góðu andlegu jafnvægi á ferðinni!
Fyrirlestur með Rúnari í Hrímni
Rúnar Þór Guðbrandsson, eigandi Hrímnis, verður með fyrirlestur í Horses of Iceland tjaldinu í dag, laugardag kl 1615 – 16:45 um nýja Hrímnis hnakkinn og virkni hans.