Arion frá Eystra-Fróðholti felldur vegna slysfara
Arion var búinn að vera í hryssum í Austvaðsholti í sumar, líkt og undanfarin ár og er talið að hann hafi verið sleginn í nótt sem orsakaði brot í bógi. Óumflýjanlegt var því að fella hestinn. Slysin gera því miður ekki boð á undan sér, eins og máltækið segir.
Arion fæddist Ársæli Jónssyni og fjölskyldu að Eystra-Fróðholti árið 2007 og var því einungis 11 vetra gamall. Hann var undan heiðursverðlaunahestinum Sæ frá Bakkakoti og Glettu frá Bakkakoti, sem var undan Óð frá Brún og Særósu frá Bakkakoti.
Arion kom fyrst fram 4 vetra gamall á Landsmóti 2011 á Vindheimamelum og kom þá strax í ljós þeir gæðingstilburðir sem hann bjó yfir, þegar hann hlaut 9 fyrir tölt, vilja og geðslag og fegurð í reið. Hann hlaut sinn hæsta dóm 7 vetra gamall en þá jafnaði hann hæfileikaeinkunn hæsta dæmda hests í heimi á þeim tíma, Spuna frá Vesturkoti, þegar hann hlaut 9.25 fyrir hæfileika. Þar af hlaut hann 10 fyrir tölt og hægt tölt. Knapi hans hefur ávallt verið Daníel Jónsson.
[video1]
Arion var ekki einungis hæfileikamikill afkastahestur, heldur var hann jafnframt afar geðgóður og mikill höfðingi. Hann var mikill vinur hinnar 2 ára gömlu Dagmar Daníelsdóttir, dóttir Daníels Jónssonar og Lóu Dagmar Smáradóttur. Arion fór meira að segja í heimsókn í leikskólann hjá Dagmar í sumar, líkt og Vísir greindi frá og sjá má hér.
Arion á nú rúmlega 300 skráð afkvæmi, en þeim fjölda á eftir að fjölga þegar skráningar koma inn frá sumrinu sem er að líða og þeim sem fæðast á næsta ári. Þetta eru sannarlega harmtíðindi fyrir metnaðarfulla ræktendur þar sem Arion er búinn að vera vinsæll undaneldishestur í mörg ár, en afkvæmin sem hingað til eru komin munu vonandi bera föður sínum gott vitni í framtíðinni og halda heiðri hans á lofti um ókomna tíð.
Isibless vottar eigendum og aðstandendum hestsins hina dýpstu samúð vegna fráfalls þess mikla höfðingja.