Líflandsfræðslan: Holdastigun íslenskra hrossa
Til að meta holdafar íslenskra hrossa var settur fram sérstakur holdstigunarskali fyrir íslensk hross en höfundar hans eru þær Guðrún Jóhanna Stefánsdóttir og Sigríður Björnsdóttir. Íslenski skalinn er 9 þrepa og hleypur á hálfum stigum. Lægst er holdastig 1 en hestur í því holdastigi er grindhoraður. Hæst er holdastig 5 en hestur í því holdastigi er afmyndaður af fitu. Ákjósanleg reiðhestahold eru holdastig 3.
Lýsing á holdastigum íslenska skalans er svohljóðandi:
1 Grindhoraður
Öll rifbein sjást, skinnið er strengt á beinin og hvergi fitu að finna. Mikið gengið á vöðva, makki fallinn, herðar og hryggsúla standa mikið upp úr, lend holdlaus. Hesturinn hengir haus og sýnir lítil viðbrögð við ytra áreiti. Mjög alvarleg vanfóðrun sem varðar við lög um búfjárhald 103/2002 og ber tafarlaust að tilkynna viðkomandi héraðsdýralækni.
1,5 Horaður
Flest rifbein sjást. Fastur átöku. Verulega tekið úr hálsi, baki og lend. Hárafar er gróft, strítt og matt. Mjög alvarleg vanfóðrun sem varðar við lög um búfjárhald 103/2002 og ber tafarlaust að tilkynna viðkomandi héraðsdýralækni.
2 Verulega aflagður
Flest rifbein finnast greinilega, og þau öftustu sjást. Örlítil fita undir húð yfir fremri rifbeinum.
Vöðvar teknir að rýrna, tekið úr makka og lend, hálsinn þunnur. Hryggsúla og herðar sjást vel.
Hárafar matt og hrossið vansælt. Vanfóðrun sem ber að taka til sérstakrar aðhlynningar.
2,5 Fullþunnur
Yfir tveimur til fjórum rifbeinum er mjög lítil fita, sem gjarnan er föst átöku, nema hrossið sé í bata. Vöðvar í lend, baki og hálsi ekki nægjanlega fylltir. Hrossið er í tæpum reiðhestsholdum og þarf að bæta á sig.
3 Reiðhestshold
Tvö til fjögur öftustu rifbein finnast greinilega við þreifingu en sjást ekki. Yfir þeim er þunnt og laust fitulag (ca 1 cm). Lendin er ávöl og hæfilega fyllt. Bakið fyllt og jafnt hryggsúlu. Hárafar slétt og jafnt.
3,5 Ríflegur
Yfir tveimur til fjórum öftustu rifbeinum er gott laust fitulag. Öftustu rifbein má samt greina.
Lend, bak og háls eru fallega vöðvafyllt og fitusöfnun má oft merkja t.d. fyrir aftan herðar. Hrossið er í ríflegum reiðhestsholdum og hefur nokkurn forða til að taka af.
4 Feitur
Þykk fita á síðu, rifbein verða ekki greind. Bak mjög fyllt og hryggsúlan oft örlítið sokkin í hold.
4,5 Mjög feitur
Greinileg fitusöfnun á hálsi, aftan við herðar og á lend.
5 Afmyndaður
Rifbein finnast alls ekki, fitan mjög þétt átöku. Laut eftir baki og mikil dæld í lend. Keppir og hnyklar af fitu, á síðu, hálsi, lend. Óæskilegt getur haft neikvæð áhrif á heilsufar.