,,Markmiðin þurfa að vera skýr’’ – Viðtal við Bríeti, landsmótssigurvegara í ungmennaflokki
Bríet er 19 ára gömul og stundar nú nám við Fjölbrautaskólann í Garðabæ þar sem hún stefnir á að útskrifast um jólin. Hún hefur stundað hestamennsku alveg frá því hún man eftir sér, enda fjölskylda hennar í hestum og eiga þau hesthús í Spretti. Bríet hefur jafnframt unnið í kringum hross á sumrin í nokkur ár og þjálfað fyrir aðra samhliða skóla á veturnar, sem hún segir verðmæta reynslu og hafa gefið henni tækifæri til að kynnast fleiri hrossum.
Aðspurð um hvað sé skemmtilegast við hestamennskuna segir Bríet hreinlega það vera svo margt; ,,Mér finnst mjög gaman þegar vinnan skilar sér, þegar maður er búinn að þjálfa og byggja upp hestinn og uppsker svo á einhvern hátt. Einnig finnst mér hestaferðir í sveitinni og samvera með fjölskyldu og vinum vera toppurinn”.
Leiðir Bríetar og Kolfinns lágu saman fyrir rúmu ári síðan, um vorið 2017. ,,Á þessum tíma vorum við fjölskyldan að svipast um eftir góðum hesti og vorum svo heppin að detta niður á Kolfinn. Eftir að hafa prófað hann í einungis eitt skipti var ekki aftur snúið og Kolfinnur varð okkar”. Kolfinnur er 13 vetra gamall stóðhestur, fæddur árið 2005 að Efri-Gegnishólum. Hann er undan Andvara frá Ey I og Stígsdótturinni Kolfreyju frá Sæfelli og er með 8.17 í aðaleinkunn í kynbótadómi sem klárhestur.
Um vin sinn segir Bríet; ,,Kolfinnur er frábær hestur, en hann er bæði viljugur, geðgóður og er alltaf tilbúinn að leggja sig fram. Einnig býr hann yfir mikilli mýkt og rými á öllum gangi.”
Bríet segir það hafa verið langtímamarkmið hjá sér að komast inn á Landsmót, en hún vildi fyrst og fremst vera vel undirbúin með Kolfinn. ,,Þjálfunin hófst í nóvember, eftir að hann var tekinn úr haustfríi. Í vetur sótti ég svo tíma hjá Sindra Sigurðssyni og fékk hjá honum góða punkta varðandi þjálfunina og undirbúning fyrir Landsmót. Ég tel að til þess að ná árangri í keppni þurfi þjálfunin að vera markviss, fjölbreytt og markmiðin þurfa að vera skýr” segir Bríet en bætir jafnframt við að mikilvægast sé að halda hestinum glöðum og sáttum.
Bríet og Kolfinnur hafa átt góðu gengi að fagna á keppnisvelinum síðustu tvö keppnistímabil og hefur verið góður stígandi í þeirra samstarfi. Eftir bæði forkeppni og milliriðla í ungmennaflokki voru þau í 2. sæti en sýndu svo á sér sína allra bestu sparihlið í úrslitunum og lönduðu sigri nokkuð örugglega. ,,Það var alveg ólýsanleg tilfinning að vinna Landsmótið” segir Bríet. ,,Það tók mig smá stund að trúa því. Kolfinnur var alveg dekraður í tætlur eftir þetta og fékk verðskuldað frí á góðu stykki í nokkra daga eftir á”.
Þar sem undirbúningur er svo mikilvægur þáttur í árangri liggur beinast við að spyrja hver rútína Bríetar sé varðandi keppni, bæði hvað varðar undirbúning fyrir sig sjálfa og hestinn. Svarar Bríet því að það fari eftir hesti; ,,Daginn fyrir keppni tek ég létta þjálfun eða gef frí, eftir því hvort hentar hestinum betur. Ég tek hins vegar til öll reiðtygi og passa að allt sé snyrtilegt. Svo fer ég yfir prógrammið í huganum og reyni eftir bestu getu að mæta vel stemmd á keppnisvöllinn”.
Það er bersýnilegt á því hvernig Bríet talar um hesta, að hesturinn sé í fyrsta sæti og að lítil annað komist að í hennar lífi heldur en hestar. Aðspurð um hvernig hefðbundinn dagur hjá henni sé í hesthúsinu segir Bríet; ,,Ég er yfirleitt komin í hesthúsið strax eftir skóla og er þar fram eftir kvöldi. Ég er með nokkur hross í þjálfun að jafnaði. Fyrir utan Kolfinn er ég einnig með hross sem ég bind nokkrar vonir við í framtíðinni.”
Nú þegar farið er að síga á seinnihlutann á keppnistímabilinu segist Bríet ætla keppa á nokkrum mótum í viðbót í sumar ásamt því að vinna við hross. Hún hlakkar jafnframt mikið til þess að komast vestur í sveitina og njóta þess að ríða út. Hún hefur ekki tekið neina endanlega ákvörðun um framtíðaráform sín eftir að hún klárar framhaldsskóla; ,,Ég gæti vel hugsað mér að fara á Hóla en það er allt saman opið ennþá. Hver sem ákvörðunin verður, verða hestar alltaf hluti af mínu lífi”.