Líflandsfræðslan: Hófsperra



Hið íslenska sjúkdómsheiti ,,hófsperra” kemur fyrst fyrir í Dýralækningabók Magnúsar Einarssonar, sem kom út árið 1931. Notar höfundur heitið til að lýsa ,,ósmitandi bólgu í hornblöðum hófsins”. Á ensku kallast hófsperra ,,laminitis”. Nú, tæpum 90 árum seinna, erum við ennþá að glíma við hófsperru í hestum en búum þó við talsvert betri upplýsingar og rannsóknir en þá. Hins vegar er sjúkdómurinn ekki enn að fullu skýrður, enda orsakir hans flóknar og getur verið erfitt að eiga við langvinna hófsperru.

Orsakir
Dýralæknar flokka gjarnan hófsperrutilfelli í þrjá flokka, sem byggjast á undirliggjandi orsök sjúkdómsins;

– Efnaskiptaraskanir
Efnaskipti hrossa, rétt eins og mannfólks, eru misjöfn. Of feitum hrossum er sérstaklega hætt við að fá hófsperru, þar sem tiltekin röskun hefur oft á tíðum átt sér stað í efnaskiptum þeirra. Er sú röskun sambærileg við sykursýki 2 hjá mannfólki og kallast á ensku ,,Equine Metabolic Syndrome” (EMS). EMS heilkennið veldur því að viðtökum fyrir insúlíni fækkar í frumum líkamans, svo þær geta ekki nýtt sér glúkósa í blóðinu. Hlutverk insúlíns er að stemma stigum við styrk glúkósa í blóðinu og er því nauðsynlegt fyrir upptöku glúkósa í flestöllum frumum líkamans.

Er þetta algengasta orsökin erlendis og færast slíkar greiningar á ástæðum hófsperru sífellt í aukanna hérlendis. Hross sem hafa verið feit frá unga aldri og safna jafnvel fitu staðbundið í makka og ofan við taglrót eru líklegust til að þróa með sér EMS, sem aftur eykur verulega hættuna á að þau fái hófsperru. Best er að taka blóð úr hrossinu til að vita hvort það sé með efnaskiptaraskanir. Hross sem er með EMS, sem hefur ef til vill ekki komist upp um áður, er sérstaklega hætt við að fá hófsperru af of snöggum fóðurbreytingum eða of sterku fóðri.

– Blóðsýkingar
Snöggar fóðurbreytingar hafa í gegnum tíðina verið talin helsta orsök hófsperru, þ.e. þegar hrossið kemst í mikið af auðmeltanlegum sykrum snögglega. Gerist það til dæmis þegar hestinum er sleppt skyndilega á græn grös, hesturinn fær of mikið af sterku heyi eða hann kemst í óheft kjarnfóður. Þarmaflóra hrossa er mjög viðkvæm og við miklar fóðurbreytingar raskast hún, sem getur leitt til þess að þarmaveggurinn skaðist og eitruð efni eiga óheftari leið inn í blóðrásina.

Hófkvikan, kvikan sem tengir hófbeinið við hófvegginn, er sérstaklega viðkvæm og röskun á blóðrás kvikunnar leiðir til kvikubólgu, þ.e. hófsperru. Alvarleg hófsperra getur leitt til þess að hófbeinið missir tenginguna við hófvegginn og tekur að snúast inn í hófnum. Er það afar sársaukafullt fyrir hestinn og verður hófurinn aldrei samur. Kvikusvæðið í innri hluta hófsins er það svæði sem er á milli stoðgrindar fótarins og hófskelarinnar. Þar liggur æðakerfi hófsins og mjög virkt taugakerfi sem gefur fætinum næma tilfinningu og stjórnar blóðflæði um fætur hestsins. Hófsperra getur því oft komið í kjölfar niðurgangs, hrossasóttar, þvagfærasýkingar eða fastra hilda hjá folaldshryssum, þar sem blóðsýkingar eru algengar í kjölfar slíkra tilfella.

– Léleg hófhirða eða ofálags
Þegar hesturinn setur of mikla þyngd á einn fót, t.d. vegna meiðsla á andstæðum fæti eða þegar hófhirða er sérlega slæm dregur úr blóðflæði til hófsins. Hreyfing stuðlar að góðu blóðflæði til allra útlima hestsins, en þegar eðlilegt hreyfimynstur raskast nær blóðflæðið ekki til hófsins. Gerist það t.d. þegar hesturinn fer að styðja sig meira á óhaltan fót eða við mikinn ofvöxt hófa, þar sem mikill hófvöxtur skekkir fótstöðu hestsins og leiðir til mikils álags á sinar og neðstu liða í fótum hestsins.

Þar sem hross í dag eru oft á gömlum túnum, mýrum eða á öðru mjúku landi slípast hófar þeirra ekki jafn vel til og þegar þeir lifðu villtir og þar af leiðandi er það á ábyrgð eigenda þeirra að sjá til þess að hófarnir vaxi ekki úr hófi.

Skilningur dýralækna á hófsperru og hvernig þróun hennar gengur fyrir sig tekur hröðum framförum. Öll tilfelli passa hins vegar ekki endilega inn í einn af þessum þrem flokkum, heldur getur það verið sambland margra þátta. Til dæmis getur hross, sem ekki er of feitt, verið með undirliggjandi EMS en snöggar fóðurbreytingar verið það sem hrindir hófsperru einkennum af stað.

Einkenni
Hófsperra er þannig í raun birtingarmynd sjúkdóms sem herjar á allan líkamann. Klínísk einkenni hófsperru geta verið mjög lúmsk eða hreinlega ekki til staðar, sérstaklega þegar um EMS heilkenni er að ræða á meðan í verstu tilfellunum getur hrossið sig varla hreyft.

Einkenni hófsperru geta verið meðal annars:

– Áberandi helti og/eða tregða við að ganga
Versta birtingarmynd hófsperru er þegar hesturinn fær sig varla hreyft og stendur með stífa framfætur og neitar jafnvel að hreyfa sig úr stað.

– Tíð þyngdarbreyting á milli fóta, þ.e. lyftir löppunum mikið til skiptis
Hesturinn víxlar stöðugt þunganum á milli framfóta en erfitt getur verið að fá þá til að lyfta fæti.

– Óeðlileg stelling eða þyngdardreifing
Alla jafnan er sársaukinn meiri í framhófum hjá hrossum sem þjást af hófsperru og má því gjarnan sjá þá hesta standa með afturfæturna langt inn undir sig til að létta á framhlutanum. Er það til þess fallið að létta af þrýstingi á þann fót/fætur sem verða fyrir áhrifum hófsperru.

– Aukin hjartsláttartíðni og svitamyndun
Ef hesturinn svitnar og er með tíðan hjartslátt án þess að hafa verið að hreyfa sig eða vera í miklum hita, þá er yfirleitt eitthvað óeðlilegt í gangi.

– Óeðlilega mikill hiti í fótum og/eða hófum
Við þreifingu má finna að hófarnir eru heitir með miklum slætti í aðliggjandi æðum í fótum hestsins.

Alvarleg hófsperra getur leitt til þess að það losni um hófbeinið en ef það færist til er yfirleitt varanlegur skaði. Ef það hefur gerst er hesturinn líklegur til að vilja liggja og neita að standa upp. Í slíkum tilfellum er hófsperran ólæknanleg og ólíklegt að hesturinn komist til góðrar heilsu á ný.

Meðhöndlun
Bregðast verður skjótt við hófsperru og hafa strax samband við dýralækni ef grunur er á hófsperru. Óráðlegt er að hreyfa hestinn úr stað, því það eykur hættuna á að hófbeinið snúist eða færist niður í hófhvarfið. Dýralæknir sér um bólgu- og verkjastillandi meðhöndlun en sambland þess og réttrar fóðrunar, umhirðu og atlæti eiganda geta komið hestinum til heilsu á ný. Einnig metur dýralæknirinn hvort taka eigi blóðprufu eða hvort nauðsyn sé á myndatöku, til að sjá hvort hófbeinið hafi færst til.

Æskilegasta undirlagið er þykkt lag af sandi eða sagi, þannig hesturinn geti vísað tánni niður á meðan versta bólgan gengur yfir. Einungis má gefa hestum með hófsperru gróft og næringarlítið hey og alls ekkert kjarnfóður. Þegar hesturinn getur farið að hreyfa sig eða lyft löppum á ný er best að fá járningamann til að koma og sjúkrajárna hestinn.

Fóðurþarfir íslenska hestsins frábrugðnar
Hófsperra hefur lengi verið þekktur sjúkdómur meðal íslenska hrossakynsins. Á meginlandi Evrópu verður hann sífellt algengari og virðist sú þróun fylgja hér á landi. Gögn sænska tryggingafélagsins Agria sýna að veruleg aukning hefur orðið á tíðni sjúkdómsins og er hann ein helsta ástæða þess að félagið greiðir út tryggingabætur vegna íslenskra hesta, hvort heldur sem er vegna sjúkdómsmeðferðar eða aflífunar. Samkvæmt gögnum félagsins er hófsperra einnig algengari í íslenska hestinum en öðrum hrossakynjum.

Það hefur lengi verið vitað að íslenski hesturinn á einkar auðvelt með að lifa á gróffóðri, t.d. sinu á haustin, miðað við önnur hrosskyn. Rannsóknir Ingimars Sveinssonar á Hvanneyri frá 1988 leiddu í ljós að magi og mjógirni íslenska hestsins eru hlutfallslega minni en í öðrum hestakynum á meðan víðgirnið, botnlanginn og ristillinn eru hlutfallslega stærri. Auðmeltanlegar sykrur og prótein meltist í mjógirninu en gróffóður og tréni í víðgirni. Þetta gerir það að verkum að íslensk hross eru vel til þess fallin að lifa eingöngu á gróffóðri á meðan erlend hross nýta kjarnfóður betur. Trúlega er það náttúruval í gegnum tíðina sem ræður þessum mismun. Þetta bendir til þess að íslensk hross þola ekki nema takmarkaða kjarnfóðurgjöf, svo gróffóður á alltaf að vera aðalfæða hestsins og passa verður sérstaklega vel upp á íslenska hestinn með tilliti til kjarnfóðurs og sterks heys. Bætt umhirða hestsins og góðar fyrirætlanir eigenda hafa í gegnum tíðina eflaust verið meðal ástæðna þess hversu mikið hófsperra hefur færst í aukanna, svo hrossaeigendur verða að vera vel meðvitaðir um þessar áhættur við að fóðra hestinn ,,of” vel.

Forvarnir
Mikilvægt er að huga að forvörnum hjá þeim hrossum sem hafa fengið hófsperru, þar sem þau eru í talsverðri hættu á að fá hana aftur. Huga þarf sérstaklega að fóðurbreytingum að vori og hausti og gefa að minnsta kosti 2-3 vikur í aðlögun á beit. Mörg þeirra hrossa sem hafa fengið alvarlega hófasperru eiga þess aldrei kost að fara aftur á óhefta beit. Mikilvægustu forvarnirnar felast því í því að hindra að hrossin verði akfeit (holdastig 4 eða meira) og koma í veg fyrir að hross í uppvexti verði of feitt. Erfitt er að stjórna holdafari hrossa á frjálsri beit en hins vegar hafa rannsóknir sýnt að það hjálpar lítið að leyfa hrossum að fá einungis stuttan beitartíma á dag, þar sem þau éta þá mun hraðar og ná þannig að vinna upp tapaðan beitartíma.

Það má því segja að hófsperra sé eins konar velmegunarsjúkdómur, þar sem sjúkdómurinn orsakast að mestu leyti af offitu og hreyfingarleysi. Unghross eiga helst að alast upp á rúmu landsvæði með hóp hrossa á svipuðum aldri, þar sem þau hafa rúm til að vafra mikið um, t.d. við leit á fóðri og leik.

Jafnframt er mikilvægt er að láta hest sem hefur verið inni allan veturinn fá góða aðlögun áður en honum er sleppt óhindrað á beit. Skynsamleg fóðrun og þjálfun hrossa á hér best við og er sú ábyrgð undir hverjum eiganda komin.