Líflandsfræðslan: Reining, hvað er það?
Er greininni oft lýst sem vestrænni útgáfu af dressúr (e. dressage), enda er greinin dæmd af svipuðum toga, þ.e. hversu vel hestur og knapi framkvæma fyrirfram ákveðnar æfingar.
Heitið Reining er illa hægt að þýða yfir á íslensku, enda á greinin sér enga hliðstæðu í kringum íslenska hestinn og hvað þá íslenskt tungumál. Helst svipar greinin þó til íslensku keppnisgreinarinnar Smala, sem náði þó aldrei þeim uppgangi sem vonast var til. Því verður hér notast við enska orðið en íslenskusinnaðir lesendur eru hvattir til að koma með tillögur að betra heiti ef þeir telja þörf á.
Nú stendur yfir mótið World Equestrian Games í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum, sem er í raun heimsmeistaramót í hinum ýmsu keppnisgreinum. Er mótið haldið af FEI (Fédération Equestre Internationale) sem er alþjóðleg samtök hestaíþrótta og eru þau viðurkennd af hinni alþjóðlegu Ólympíunefnd. World Equestrian Games er haldið á fjögurra ára fresti, á móts við Sumar Ólympíuleikana þar sem einnig er keppt í sömu greinum.
Reining er ein af þeim greinum sem keppt er í á mótinu, en áhugasamir geta kynnt sér betur og jafnvel fylgst með mótinu hér. Hér að neðan má jafnframt sjá stutt og skemmtilegt kynningarmyndband sem útskýrir reglur og framkvæmd greinarinnar.
[video1]
Reining á rætur sínar að rekja til Ameríku, þegar spænskir landnámsmenn settust að þar sem nú er Mexíkó og Suðvestur Bandaríkin. Þeir byrjuðu að rækta landið og halda búfé og þurftu þar af leiðandi að geta smalað búfénu á hestum sínum, sem helst voru nautgripir. Oft þurftu bændur að athafna sig án aðhalds við að brennimerkja, færa og aðskilja gripina. Þaðan á orðið kúreki (e. bowboy) uppruna sinn. Það var því afar mikilvægt fyrir kúreka að vera á góðum hesti.
Reining var skilgreind sem hestaíþrótt árið 1949 af Samtökum Ameríska Quarter hestsins (AQHA), en sú tegund af hesti er vinsælust í vestrænni reiðmennsku. Þegar keppt er í greininni þarf parið að sýna ákveðnar hreyfingar eða æfingar, svo sem litla hringi sem riðið er hægt, stóra hringi sem riðið er hratt, fljúgandi stökkskiptingu, snúninga og skyndistöðvun (e. sliding stop), en sú æfing telst eitt helsta aðalsmerki góðs kúrekahests.
Hér að neðan má sjá myndband af knapanum Jordan Larson og hestinum HF Mobster framkvæma sýningu sína á World Equestrian Games árið 2014. Voru þeir félagar keppendur í bandaríska liðinu sem vann gullverðlaunin í hóp-reining á mótinu fyrir fjórum árum. Jordan Larson keppir einnig á WEG 2018 sem nú er í fullum gangi, en á hestinum ARC Gunnabeabigstar.
[video2]
Reining krefst þess af hestinum að hann sé móttækilegur fyrir ábendingum knapans og að parið sýni af sér samhljóm. Rétt eins og í dressúr, þá eiga ábendingar knapans að sjást sem minnst um leið og hann stjórnar nánast hverri einustu hreyfingu hestsins. Hestur sem sýnir einhver merki um mótsspyrnu eða ábótavant viðhorf gagnvart því sem knapinn er að biðja hann um að gera, er dæmdur í samræmi við það og fær því ekki góðan dóm.
Æfingarnar sem hesturinn er beðinn um að framkvæma eru erfiðar og þarf hesturinn að vera kröftugur og með öfluga lend til að geta gert þær á sem bestan máta. Meðal þeirra æfinga sem sýndar eru í reining eru:
– Hringir : riðið er bæði stóra og litla hringi, þar sem stórir hringir eru riðnir á hraðri stökkferð á meðan minni hringirnir eru riðnir á hægri stökkferð. Eiga hringirnir að vera sem mest kringlóttir.
– Fljúgandi stökkskipting (e. flying lead change) : sú æfing eru iðulega framkvæmd þegar skipt er um hönd á hringjunum. Þá skiptir hesturinn stökkhendi um leið og hann er í svifi. Ef hesturinn skiptir eingöngu um leiðandi framfót, þá er hann hins vegar kominn á kýrstökk sem telst óæskilegt og er dæmt í samræmi við það.
– Skyndistöðvun (e. sliding stop) : í þessari æfingu á hesturinn að vera á fullri stökkferð og auka hraðann þangað til hann stoppar skyndilega, setur afturfæturnar vel inn undir sig og leyfir þannig afturhlutanum að renna aðeins á meðan framfæturnir ganga aðeins áfram, þangað til hesturinn er alveg stopp. Bakið á að vera uppi og afturhlutinn að koma vel inn undir hestinn.
– Bakk (e. backup) : hesturinn bakkar snögglega a.m.k. 3 metra í beinni línu og stöðvar um leið og hann er beðinn um það, hikar svo örlitla stund áður en farið er í næstu æfingu.
– Hopp til hliðar (e. rollback) : hesturinn framkvæmir 180 gráðu hopp til hliðar án þess að hika, eftir að hafa t.d. komið úr skyndistöðvunaræfingunni og heldur svo beint áfram á stökki. Hesturinn verður að nota afturhlutann vel í æfingunni, enda hvílir allur þunginn á afturhlutanum á meðan framfæturnir eru í svifi.
– Snúningur (e. spins) : í þessari æfingu snýr hesturinn sér mjög hratt í heilan hring (360 gráður) eða fleiri með afturhlutann á sama stað. Má segja að æfingin sé í raun fljúgandi afturfótasnúningur, þar sem hesturinn á að standa sem mest kyrr að aftan en nota framfæturna til að snúast. Eftir því sem æfingin er framkvæmd hraðar, því erfiðari er hún.
– Pása (e. pause or hesitate) : æfingin er ekki beint dæmd sem æfing, en knapinn þarf að sýna fram á það að hesturinn sé það vel taminn að hann geti staðið kyrr án óþolinmæðar þegar hann er beðinn um það, á milli afkastamikilla æfinga. Sýnir það fram á að hesturinn sé spennulaus og viljugur til að þóknast knapanum.