Líflandsfræðslan: Brautryðjandinn Theódór Arnbjörnsson


Theódór er einna helst þekktur fyrir að vera upphafsmaður að færslu ættbókar íslenska hestsins. Ættbók Búnaðarfélags Íslands, sem Theódór lagði grunn að, er undirstaða þess mikla gagnagrunns sem ræktun íslenska hestsins byggist nú á; WorldFeng. Í starfi sínu þurfti hann að takast á við mörg erfið verkefni, svo sem hvort rækta ætti tvö hestakyn í landinu; vinnuhestinn og reiðhestinn og var hann einnig upphafsmaður afkvæmasýninga, sem reyndust mikilvægt framfaraskref í ræktunarstarfinu. Hann var vandaður fræði- og vísindamaður sem hafði samkennd með mönnum og málleysingjum og lagði sitt lóð á vogarskálarnar við að bæta aðbúnað búfénaðar, m.a með skrifum á fjölmörgum greinum og fræðiritum. Mikilvægu lífsstarf Theódórs eru gerð nánari skil hér að neðan.

Búfræðingur frá Kaupmannahöfn
Theódór fæddist þann 1. apríl 1888 að Stóra-Ósi í Miðfirði í Húnavatnssýslu. Hann lauk búfræðiprófi frá Hólum árið 1913. Hann starfaði meðal annars á búi foreldra sinna eftir útskrift og einnig sem verkstjóri á skólabúinu á Hólum. Hann festi kaup á jörð í Fljótum í Skagafirði árið 1917 en brá hins vegar búi árið 1919 til að hefja nám í búfræði við Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn. Sumarið 1920 snéri hann aftur heim og tók við starfi ráðunauts hjá Búnaðarfélagi Íslands. Fram til ársins 1928 sinnti Theódór starfi ráðunautar bæði í sauðfjár- og hrossarækt en frá því ári einungis í hrossarækt.

Annt um hross
Theódóri var lýst sem miklum mannúðarmanni, sem hafði samkennd með bæði mönnum og málleysingjum og var fylginn sjálfum sér. Sem dæmi um hversu greinilega honum var annt um hesta sína, þá var skrifað í minningargrein um hann : ,,Þetta land hefur átt marga góða hestamenn, en hversu margir þeirra munu undartekningarlaust hafa fylgt þeirri reglu Theódórs, hversu ferðalúinn sem hann kom í náttstað á ferðalögum sínum, að fylgja ávallt hesti sínum í hús?”.

Ruddi brautina í ræktunarstarfi íslenska hestsins
Theódór hafði mikla tilfinningu fyrir skepnum og ræktun þeirra. Hann var frumkvöðull í því að móta það ræktunarstarf sem við þekkjum í dag, en hann gerði það markvisst og skipulagt, sem var nýlunda á Íslandi. Árið 1926 voru sett ný lög um kynbætur hrossa sem ollu staumhvörfum í sögu hrossaræktarfélaganna sem víða höfðu verið stofnuð. Þá var veittur styrkur til ræktenda fyrir hverja hryssu sem leidd var undir stóðhesta á vegum hrossaræktarfélaganna.

Hvað aðferðafræði við kynbætur varðar var ekki komið að tómum kofanum hjá Theódóri. Hann gerði sér glögga grein fyrir mikilvægi ættskráningar fyrir kynbótastarf og hóf formlega færslu opinberrar ættbókar fyrir íslenska hrossakynið árið 1923. Í henni voru skráðir stóðhestar sem bestir þóttu á sýningum, en þær byrjuðu árið 1906, þ.e. þeir stóðhestar sem náðu a.m.k. 2. verðlaunum 4 vetra eða eldri. Sambærileg ættbókarskráning var höfð fyrir hryssur. Það má því segja að þetta hafi verið ættbók fyrir einungis úrvalshross, þ.e. einungis betri hluti stofnsins var færður til ættbókar og hrossunum gefin númer frá 1. Þessi aðferð var viðhaldið alveg til ársins 1986, þegar númerakerfið var endurskoðað og undirbúningur var hafinn að skrásetningu alls hrossastofnins í heild.

Það má segja að Theódór hafi verið langt á undan sínum íslenska samtíma, en hann gerði sér einnig grein fyrir þörf afkvæmasýninga fyrir frekari framfarir í kynbótastarfinu. Í grein eftir hann sem birtist í Búnaðaritinu árið 1923 sagði hann; ,,Einstaklingssýningar eru aðeins leiðbeining í leitinni að kynbótaskepnunum, en afkvæmasýningarnar segja hvaðan kostirnir komu og það er fræðsla sem okkur liggur á.”

Tvö íslensk hestakyn
Árið 1921 birti hann grein um stefnu sína í leiðbeiningarstarfi í hrossaræktinni, en þar leggst hann eindregið á móti þeirri stefnu sem átti sér þá marga fylgismenn, að rækta ætti tvö hestakyn í landinu, þ.e. vinnuhesta og svo reiðhesta. Það viðhorf sætti mikilli gagnrýni frá mörgum bændum þar sem tímabilið á milli 1900-1940 var blómatími vagna og vinnuvéla sem hestum var beitt fyrir og mikil þörf var fyrir sterka og öfluga dráttar- og vinnuhesta. Theódór lagði áherslu á að rækta einungis eitt hestakyn þar sem reiðhestar og vinnuhestar ættu samleið þó að verksviðin væru tvö. Þá vildi hann að þrekvaxnari hrossin yrðu valin til vinnu á meðan léttbyggðari og hreyfingarmeiri hross yrðu notuð sem reiðhestar.

Að Theódóri látnum varð breyting á þessu viðhorfi Búnaðarfélagsins vegna háværra radda bænda og fól félagið því Gunnari Bjarnasyni, sem tók við starfi hrossaræktarráðunauts, það verkefni að móta stefnu um aðskilda ræktun reiðhestsins og vinnuhestsins, með áherslu á ræktun vinnuhesta. Á þeim tíma kom oft upp ósætti á sýningum vegna þessa og þótti áhugamönnum reiðhestsins að honum vegið. Aftur á móti var þetta tímabil sem betur fer stutt þar sem tæknivæðingin hóf innreið sína í íslenskan landbúnað og árið 1951 var hugsjónum Theódórs um ræktunartakmark fylgt eftir með formlegri samþykkt búnaðarþings um að markmið yrði sett á ræktun reiðhestsins.

Útgáfa fræðslurita
Bókin Hestar var gefin út af Búnaðarfélagi Íslands árið 1931. Þetta var fyrsta samfellda fræðsluefnið sem til var á íslensku um hesta og reiðmennsku og þótti því tímamótaverk. Þrátt fyrir það að bókin sé orðin 87 ára gömul og miklar framfarir hafa orðið á öllum sviðum hestamennskunnar, heldur bókin gildi sínu í fjölmörgum atriðum. Hugmyndir Theódórs voru afar framúrstefnulegar og hestvænar, sem miðuðu að því að leiðbeina hestamönnum og benda á mikilvægi góðs aðbúnaðs og vandaðrar tamningu hestsins.

Bókin Járningar leysti úr brýnni þörf en þá var hið mesta ólag á járningum og hófhirðu hrossa hér á landi. Theódór fannst nauðsynlegt að bæta úr því og gaf út bókina með því hugarfari að fræða almenning um nauðsyn réttrar hófhirðu. Síðasta verk Theódórs var Sagnaþættir úr Húnaþingi, sem kom út að honum látnum árið 1941. Voru það greinar sem höfðu að einhverju leyti birst áður, m.a. í Lesbók Morgunblaðsins.

Sannur íslenskur hestamaður
Í gegnum skrif Theódórs má sjá að hann elskaði og dáði hesta, hafði mikið vit og tilfinningu fyrir þeim, kunni með þá að fara og njóta þeirra. Það má því segja að hann hafi verið hinn sanni íslenski hestamaður en auk þess bar hann mikla hugsjón í brjósti fyrir hönd landbúnaðarins og hvatti bændur til að standa sig gagnvart skepnum sínum, að menn í störfum sínum sameinuðu þekkingu, glögga athugun og fegurðartilfinningu. Þessi boðskapur skín í gegn í öllum hans skrifum.

Þrátt fyrir að Theódór hafi aðeins náð að verða rúmlega fimmtugur er arfleifð hans mikil hvað varðar íslenska hestinn og ræktun hans. Hann kenndi snemma hjartaveilu sem ágerðist með aldrinum og varð hann að lokum bráðkvaddur á heimili sínu þann 5. janúar árið 1939 í Reykjavík.

Nánar verður fjallað um bókina Hestar eftir Theódór Arnbjörnsson í næstu Líflandsfræðslu.