Líflandsfræðslan: ,,Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá”


Með sinni hugmyndafræði um meðferð, tamningu og viðhorf gagnvart hestinum má segja að Theódór hafi verið langt á undan sinni samtíð, þrátt fyrir að nauðsynlegt sé að lesa bókina með tilliti til þess tíðaranda sem þá var, á 3. og 4. áratug síðustu aldar.

Í gegnum skrif Theódórs má skynja hvernig viðhorf hans var gagnvart hestum, hversu mikla hlýju hann bar til þeirra og hafði velferð þeirra að leiðarljósi. Margar þær aðferðir sem hann talar um hafa þó ekki allar staðist tímans tönn vegna aukinnar þekkingar á reiðmennsku og bættri aðstöðu, en má segja að hafi fyrirmyndar ef tekið er mið af þeim tíma sem þetta var skrifað.

“Bók þessi er fyrst og fremst skrifuð fyrir alþýðu manna, til heimalestrar því að fæstir þeirra sem umgangast hesta mikið, njóta skólamenntunar um þá hluti”
– Theódór Arnbjörnsson – Hestar (útgefin árið 1931).

Bókin Hestar skiptist í fjóra meginkafla; hestakyn, auðkenni, bygging og gangur íslenska hestsins, taming og notkun og loks hús, hirðing og fóður. Fyrsti kaflinn fjallar um hestakyn heimsins en þar er að finna mjög ítarlegar og gagnlegar upplýsingar um þau hestakyn sem til voru á þeim tíma, sem og ítarlegum lýsingum á kynbótum Íslendinga frá landnámi.

Litir íslenska hestsins
Annar kafli bókarinnar kemur inn á liti, augnliti og önnur auðkenni íslenska hestsins. Sem dæmi um áhugaverðar staðreyndir frá þeim tíma, er hversu hátt hlutfall grárra hrossa mætti á sýningar á árunum 1920-1930. Var hlutfallið um 21,7{9aeeeda557abe44de3fb85b41073e0526143a50e91d308534e92b8141b03f4f5}, sem var næst á eftir rauðum (32,2{9aeeeda557abe44de3fb85b41073e0526143a50e91d308534e92b8141b03f4f5}) en á undan hinum grunnlitunum, brúnum (13,2{9aeeeda557abe44de3fb85b41073e0526143a50e91d308534e92b8141b03f4f5}) og jörpum (12,2{9aeeeda557abe44de3fb85b41073e0526143a50e91d308534e92b8141b03f4f5}). Samanborið við tölur frá árinu 1998 sem Þorvaldur Árnason og Ágúst Sigurðsson tóku saman frá u.þ.b. 64 þúsund hrossum, þá voru grá hross ekki nema 7,6{9aeeeda557abe44de3fb85b41073e0526143a50e91d308534e92b8141b03f4f5}.

Þó beri að taka tillit til gagnanna sem voru notuð fyrir þessar tölur er engu að síður gaman að bera þetta saman, enda grá hross í hávegum höfð fyrr á tímum. Theódór hafði einnig sterkar skoðanir á því að útrýma ætti glaseygðum augnlit þar sem þau hross væru nærri því blind því þau fengju ofbirtu í augun í mikilli sól eða snjóbirtu. Áhugamenn um fjölbreytileika lita eru því eflaust fegnir að það hafi ekki tekist hjá Theódóri.

,,Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá”
Á þeim tíma sem bókin var skrifuð voru uppi ýmsar skoðanir um það hversu mikið væri hægt að ákvarða notagildi hestsins út frá byggingu en Theódór vildi meina að ,,af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá”. Dýrmætt er að geta vitað fyrirfram hverjir ávextirnir verða og fer hann ítarlega yfir það hvernig æskileg bygging sé.

Hann útskýrir ýmis lögmál og viðmið til þess að meta byggingu hestsins, margt sem ennþá á fullan rétt á sér í dag. Sem dæmi má nefna það viðmið að hesturinn sé talinn hæfilega hár ef hæðin á herðakamb er jafnmikil lengdinni á milli bógliðs og setbeinsenda (fram- og afturenda). Sé hæðin meiri kallast hesturinn stuttur en sé hún minni kallast hann langur. Byggði Theódór þetta mat og önnur á bæði ræktunarviðmiðum arabíska hestsins en einnig á hrossum frá Vesturlöndum.

Hvað varðar höfuðburð og virkni baksins, þá virðist Theódór hafa gert sér grein fyrir því að meðalhófið sé best, þrátt fyrir að það væri vandratað. Hann vildi meina að of lítil reising olli því að hesturinn beri framfæturnar lágt, sporið verði stutt, hesturinn þyngist á taumana og að hann gæfi verri ásetu í þeirri reisingu, þar sem afturfæturnir kæmu aldrei nógu vel inn undir hestinn.

Aftur á móti væru ókostir of hárrar reisingar þeir að ,,burðarmagn höfuðþungans fyrir bakið væri þá of mikið rýrt, bakið sveigist niður og lætur undan átökum afturfótanna er þeir spyrna hestinum áfram. Það drægi úr skerpunni í sporinu og auki á erfiði hestsins að sama skapi”.

Þekking okkar á líffærafræði og anatómíu hestsins hefur stóraukist frá því að þessi bók kom út en hér kemur Theódór meira og minna inn á allt það sem talað er um og þykir sannfært í dag, að bygging hestsins hafi áhrif á náttúrulegu getu hestsins til að hreyfa sig í góðri líkamsbeitingu.

Ljúft er hýrusporið
Í bókinni segir Theódór að töltið hafi verið nefnt ýmsum nöfnum í gegnum tíðina, s.s. millispor, hýruspor, hundsspor og léttaspor. Hann kom með nákvæma skilgreiningu á töltinu og talaði um að það eftir því lengur sem einstuðningur væri, því hreinna væri töltið. Theódór taldi að ef ekki væri um að ræða hreint tölt, væri brokktöltið ,,dýrari háttur” en skeiðtöltið og átti þar við að brökktölt væri æskilegra en lull.

Nú er búið að rannsaka hreyfingarfræði og gangtegundir hrossa talsvert og koma þær niðurstöður að stórum hluta heim og saman við kenningar Theódórs um hreyfingarfræðilegar forsendur tölts, þ.e. að um ein- og tvístuðning sé að ræða. Rannsóknir hafa síðan leitt í ljós að tölt getur einnig verið með þrístuðning á mjög hægri ferð.

Mikilvægi góðrar tamningar

,,Tamning kallast sú kennsla sem hestur þarf til þess að verða manni auðsveipur þjónn og góður félagi og vinur.”

Theódór skrifaði talsvert um hvað uppeldi, aðbúnaður og tamningin geti haft mikið að segja um augnsvipi og augnaráð hrossa. ,,Tamningin hefir oft mikil áhrif á augun því henni er álíka auðvelt að gefa hestinum þor og kvíða, að vekja lífsgleði og slökkva hana, að gefa rólyndi og farga því.”

Theódór lagði mikla áherslu á traust og gagnkvæma virðingu manns og hests. Hann hugsaði mikið um að setja upp réttar aðstæður svo hægt væri að fara auðvelda leið að t.d. að beisla hross (með því að taka það ekki með valdi heldur að velja sér aðstöðu, t.d. réttardilk eða horn). Hann sagði að “maðurinn sem temur hrossið á að varðveita það frá öllum sársauka af tamningunni og að halda sér ávallt í þeirri afstöðu við hrossið að það geti ekki beitt afli eða öðru harðræði sem mótþróa gegn honum”. Hann vildi meina að það væri beinasta leiðin til þess að vekja lotningu nemandans fyrir kennaranum án alls ótta og kenna nemandanum að hlýða án sársauka. Ef gengið væri í hrossið væri tamningin orðin að ofbeldi sem vekur ótta og kvíða hjá hrossinu og að það myndi drepa sjálfsákvörðun þess, sem ætti þó að verða höfuðstyrkur þess á fullorðinsárunum.

Fordæmdi harðræði
Hann lagði mikið upp úr því að skynsamleg tamning væri fyrst og fremst andlegt viðfangsefni og ánægjulegt fyrir þá sem unna andlegum þroska. Hann fordæmdi þá tamningaaðferð sem kúgun og harðræði var, sem sást oft á þeim tíma að hans sögn. Hann byrjaði tamninguna frá hendi, að hesturinn ætti að teymast vel með manninum og svo frá hestbaki áður en hugsað var um að setja hnakk á og fara á bak. Á þeim tíma var ávallt notast við beisli við að bandvenja. Í bókinni minnist Theódór á ,,hafurstökk” , sem virðist hafa verið samheiti þess þegar hesturinn hrekkir, sem er algengasta hugtakið í nútíma máli þegar hesturinn reynir að koma manneskju af baki. Theódór talar um að sigra eigi hrekkjótta hesta með því að taka þá fyrst í kvikum sandi eða blautum mýrum, þ.e. setja upp réttar aðstæður til að ætlunin gangi upp. Theódór var afar orðheppinn maður og kemur hér vel að orðum um hversu mikilvæg sjálfsskoðun væri; ,,Mestur vandi mannsins er að temja sjálfan sig og að læra meta sanngjarnlega þá sem hann umgengst”.

Sérstaða íslenska hestsins
Theódór gerði sér fulla grein fyrir sérstöðu íslenska hestsins meðal hestakynja heimsins og talaði um þá fjölbreytni sem íslenski hesturinn býr yfir og því erfitt að gefa ákveðnar reglur nema um fátt eitt sem snertir tamninguna til að byrja með. Íslendingar vildu sameina sem flesta kosti hjá hverjum hesti, t.d. átti sami hestur að geta farið í langferð og skemmtigerð, tölta og keppa á skeiði og stökki og jafnvel brokki. Hann taldi Íslendinga því gera meiri kröfur til sinna hesta en aðrar þjóðir en minntist þó á að sama skapi væru minni kröfur gerðar til fóðurs og hirðingar en hjá öðrum þjóðum. Hann segir því : ,,Sá hestur er því vel gerður frá náttúrunnar hendi, sem verður gæðingur á íslenska vísu og lifir þó við venjuleg íslensk skilyrði”.

Kynnast ólíkum hestum
Hann hvatti þá sem vildu verða góðir reiðmenn að kynnast mörgum og ólíkum hestum og finna með reynslu og hugun hvaða aðferðir henta hverjum þeirra best. Auk þess ætti knapi að njóta að minnsta kosti eins hests sem væri framúrskarandi skörungur bæði að skapgerð og íþróttum, því að ,,fyrr veit hann ekki hve hátt hann á að setja markið þegar hann temur ágætan hest heldur sættir sig við laglega miðlunga og heldur þá vera ágæta”.

Eftir þetta fyrsta stig tamningar vildi hann meina að þarna skildust leiðir, að dráttarhestur væri taminn á einn veg  á meðan tamning reiðhestsins væri önnur.

,,Hverja stund skal að vaka yfir taumhaldinu”
Theódór lagði mikla áherslu á að hesturinn ætti að vera léttur í tauma og geta verið stilltur til hliðanna en ekki taumskakkur. Hann kom fram með margar framúrstefnulegar leiðbeiningar sem áttu eflaust að einhverju leyti uppruna sinn í athugun hans á klassískri reiðmennsku á meginlandinu. Þegar hesturinn væri orðinn léttur í taumunum og ber sig vel væri næsta skref að æfa hann í að víkja til hliðar án þess að gangurinn fipist eða hesturinn stífi bakið; ,,Þá er gott að vera á melum eða vegleysum, halla sér til hliðar og taka hestinn með sér, svo að afturfæturnir gangi inn undir hestinn á meðan hann sveigir”.

Theódór virðist hafa verið að útfæra æfingar frá klassískri reiðmennsku yfir á íslenska reiðmennsku, þar sem engar voru reiðhallirnar hér á landi til að fara náið ofan í þau fræði, heldur notfærði hann sér sveigjuna til að mýkja og létta hestinn, gera hann jafnari á báða tauma, léttann í beisli og til auka gæði gangtegunda með því að fá afturfæturnar betur inn undir hestinn. Þetta er allt eitthvað sem enn á við í dag og búið að sanna mikilvægi þessara æfinga, svo að hesturinn geti sem best borið manninn með virkum afturfótum, sterkum kviðvöðvum og lausu baki.  

Eldri sjónarmið
Í bókinni segir Theódór að strax á fyrstu æfingum eigi að ákvarða reisingu og höfuðburð hestsins út frá hálsbyggingu hans, herðum og baki og að halda eigi því lagi alla tíð. Það er talsvert ólíkt okkar sjónarmiðum í dag, þar sem í dag er það talið nauðsynlegt við þjálfun hestsins að geta breytt höfuðburði hestsins eftir því hvað verið sé að þjálfa. Eins og nútíma þjálfunarfræði segir okkur, þá er það nauðsynlegt að leyfa hestinum að teygja hálsinn fram og niður til að byggja upp sterkt bak.

Theódór virðist hafa verið að notfæra sér visvítandi það að ríða brokktölt í byrjun tamningar, ,,til þess að létta hestinn á taumnum og fá ganginn greiðan og mjúkan”. Hann taldi það vera vott um ,,óhóflega frekju þegar þungir menn létu óharðnaða fola þvælast um á tölti um langa vegi og pína úr þeim ganginn eins og þeir frekast gátu”. Hann taldi það jafnframt vera mikilvægt að lýja hestinn ekki á þroskaárunum og spara hann svo þrótturinn og mýktin gæti orðið sem best seinna meir. Bókin segir frá ýmsum ráðleggingum við vandamálum sem upp geta komið á tölti sem lýsir þeirri snilligáfu sem Theódór bjó yfir, að geta stillt aðstæðum upp þannig að verkefnið takist og að geta ,,íslenskað” þær æfingar sem höfðust við í klassískri reiðmennsku.

Varðveisla skeiðsins
Theódór lýsti skeiði sem kosti, en þaðan kemur einmitt orðatiltækið; að fara á kostum. Það var sú veglegasta lýsing sem hægt var að velja afrekum ágætis hests. Á þessum tíma fór þeim hestum hins vegar ört fækkandi sem fóru á kostum. Hann talaði um að engar upplýsingar né fræðslu væri hægt að finna um skeið nema úr heimanfenginni reynslu. Hann var hræddur um að reynsla þeirra fáu náttúrubarna á skeiði myndi gleymast þar sem fáir hugsuðu um skeið á þessu tímabili. Í bókinni segir hann; ,,sú reynsla gleymist nú óðum þegar óvíst er hvort nokkur vill hugsa um skeið og hlúa að skeiði en þessi dýrðlega íþrótt lifir ekki lengi með þeirri þjóð sem skipar henni til sætis á hinn óærði bekk – þó skal reyna að lýsa einföldustu æfingum fyrir skeiðhesta, ef einhvern ungling skyldi langa að reyna, hvort ekki fæddust enn hestar sem náttúran hefði búið vel að kostum.”

Theódór vildi meina að ekki ætti að byrja að þjálfa skeið fyrr en hesturinn væri orðinn það vel taminn á hinum gangtegundunum og svo þroskaður að hann þoldi að leggja sig fram.

,,Verður seint nægilega brýnt fyrir ungum mönnum , sem ekki eru enn bundnir með vana við ákveðið taumhald og ásetu, að byrja á að temja sjálfan sig áður en þeir hugsa svo hátt um að temja aðra og venja sig á milt, vakandi taumhald og árvakra ásetu svo þeir verði þess undir eins varir ef þeir standa ekki í stöðu sinni gagnvart hestinum svo sem vera ber. Ef þeir læra að gera fullar kröfur til sín er lítil hætta á að þeir geri ósanngjarnar kröfur til hesta sinna og verða fyrir það betri menn og meiri”.

Tímamælingar á skeiði höfðu fram að þessu ekki verið notaðar. Sá hraði sem bestur hafði fengist á skeiði var mældur sem heil spor á fölvuðum ís. Sú mæling gaf einungis nokkra hugmynd um hraðann en æði ónákvæma, þar sem hestar geta verið svo mistíðir á gangi, þ.e. tveir hestar geta skilað jafnlöngum sporum en verið þó misfljótir. Mestu sporlengd á skeiði sem Theódór sá var 22 fet, en það var eftir Létti, hest Jóns Ásgeirssonar á Þingeyrum.

Hirðing og fóðrun
Theódór var ákafur talsmaður fóðurbirgðafélaga, eftirlits með skipuhaldi og búfjártrygginga. Hann taldi sumarið á Íslandi gefa ungviði þá bestu aðstöðu til að vaxa og dafna og fullorðnum hrossum góða næringu, á meðan veturnir væru langir og harðir. Hann beitti sér fyrir því að leiðbeina hestamönnum um hvernig hesthús skulu vera svo hestinum líði sem best og hvað þyrfti að gera ráð fyrir og taka tillit til þegar hestar væru hafðir á húsi.

Honum var annt um að bændur huguðu vel að hrossum sínum hvað varðar fóðrun og aðbúnað á veturna. Hann sagði hross vera viðkvæmust af öllum búnfénaði og þola lakast vont andrúmsloft, sóðalegt legurúm og skemmt fóður.

Með föstum rökum en aðgætni reyndi hann að fá menn í lið með sér til að bæta aðbúnað búfjár á þessum árum. Honum var annt um að bændur huguðu vel að búfé sínu og benti mönnum á að sveitabúskapur yrði að skila arði og til þess væri nauðsynlegt að hirta og fóðra búfénað vel. Hann talaði fyrir því að kynbætur næðu aðeins takmarki sínu þegar meðferð hamlaði ekki þroska.

Arfleifð Theódórs
Theódór vann mikið brautryðjandaverk með útgáfu bókarinnar. Hann virðist hafa haft erlendar aðferðir til hliðsjónar en byggði bókina að mestu upp á sínum eigin reynslubanka, sem og á ekta al-íslenskum aðferðum, með áherslu á vináttu á milli manns og hests.

Hann lagði áherslu á léttleika hestins við öllum ábendingum, að hreyfingarnar ætti að vera með fjöri, fasi og fjaðurmagni og að sjálfsöryggi og persónueinkenni hestsins fengju að njóta sín. Hesturinn átti fyrst og fremst að vera félagi mannsins en ekki þræll. Það er óhætt að segja að Theódór hafi haft einstaka tilfinningu og næmni fyrir hrossum, sem íslenskir hestamenn hafi búið að og lært af í tæpa níu áratugi. Minningu og arfleifð Theódórs verður því vonandi haldið áfram á lofti um ókomna tíð, enda starf hans í þágu íslenska hestsins ómetanlegt.