Horses of Iceland á afmælishátíð íslenska hestsins í Danmörku



Dagskráin hefst með skrúðreið frá konunglegu hesthúsunum við Kristjánsborgarhöll kl. 11. Riðið verður í gegnum miðborg Kaupmannahafnar að Norðurbryggju á Kristjánshöfn. Samstarfsráðherrar Norðurlandanna í Danmörku og Íslandi leiða skrúðreiðina, þau Eva Kjer Hansen og Sigurður Ingi Jóhannsson.

Á Norðurbryggju, þar sem sendiráð Íslands er til húsa, verður fjölbreytt dagskrá allan daginn sem tengist íslenska hestinum og íslenskri menningu. Markmiðið er að breiða út þekkingu á íslenska hestinum og auka áhuga á Íslandshestamennskunni í Danmörku, og fagna bæði 50 ára afmæli Íslandshestasamtakanna í Danmörku og 100 ára fullveldinu.

Gestir fá að klappa hestunum, boðið er upp á fyrirlestra og kynningar á hlutverki íslenska hestsins, kvikmyndasýningar, kórsöng, íslenskan mat og til sölu verður fjölbreyttur varningur sem tengist Íslandshestasamfélaginu og íslenskri menningu. Dönsku Íslandshestasamtökin eru aðilar að Horses of Iceland markaðsverkefninu sem Íslandsstofa leiðir og því kemur Íslandsstofa að dagskránni með virkum hætti. Gestir geta tekið þátt í getraun og unnið gjafabréf frá Icelandair. Dagskráin er sniðin að fjölskyldum, en sunnudagurinn 21.október fellur inn í haustfrí í dönskum skólum.

UM ÍSLANDSHESTASAMFÉLAGIÐ Í DANMÖRKU
Fjöldi íslenskra hesta í Danmörku er 37.000 og u.þ.b. 10.000 félagsmenn stunda hestamennsku á íslenskum hestum í 66 hestamannafélögum. Sjá nánar hér.
Dansk Islandshesteforening, samskiptastjóri Kristina Christensen, kristina@islandshest.dk

SENDIRÁÐ ÍSLANDS Í KAUPMANNAHÖFN
Á þessu ári stendur sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn fyrir fjölbreyttri dagskrá í tilefni af aldarafmæli fullveldisins. Hún nær hápunkti með hátíðardagskrá á Norðurbryggju 1. desember. Vegna mikils áhuga og velþóknunar Dana á íslenskri menningu eru fjölmargir viðburðir skipulagðir í samstarfi við fræða- og menningarstofnanir og kynningarmiðstöðvar á Íslandi og í Danmörku. Saga íslenska hestsins og íslensku þjóðarinnar er samofin og því tilvalið að tengja afmælishátíð Íslandshestasamtakanna í Danmörku aldarafmæli fullveldisins.

Meðal annarra viðburða sem sendiráðið hefur staðið að á þessu ári má nefna Íslendingasagnakvöld víðsvegar um Danmörku, íslenska kvikmyndadaga, bókmenntakvöld, sýningu á íslenskri hönnun í Illums

Bolighus og fánasýningu í sendiráðinu, málþing í Kaupmannahafnarháskóla um sambandslagasamninginn þar sem forseti Íslands var frummælandi og íslenska tónlistarviðburði. Framundan er kynning á Þingvöllum í ráðhúsi Kaupmannahafnar, íslensk kóradagskrá í Holmens kirke, sýning og málþing um íslenska samtímalist á Norðurbryggju og síðustu Íslendingasagna- og bókmenntakvöldin, auk hátíðarhaldanna 1. desember.
Stefanía Kristín Bjarnadóttir, viðskiptafulltrúi, skb@mfa.is, sími +45 29804324 og 545 7722

HORSES OF ICELAND
Aðilar í Íslandshestamennsku tóku sig saman árið 2015 um um að kynna hestinn á heimsvísu undir slagorðinu „Horses of Iceland – Bring you closer to nature“. Stofnað var til samstarfs við íslensk stjórnvöld sem lögðu 25 milljónir króna í fjögur ár 2016-2019 (samtals 100 milljónir) í markaðsverkefni sem Íslandsstofa stýrir. Skilyrði ríkisins var að fyrirtæki og samtök í hestageiranum kæmu með sama fjármagn á móti (svokallað króna á móti krónu verkefni). Íslandsstofa leggur til verkefnisstjóra og kostar laun hans.

Tilgangur markaðsverkefnisins Horses of Iceland er að byggja upp orðspor íslenska hestsins um heim allan til að leggja grunn að aukinni verðmætasköpun og útbreiðslu hestsins á heimsvísu. Um er að ræða samstarf aðila í hestatengdri starfsemi, bæði á Íslandi og í öðrum löndum. Með markaðsverkefninu er lögð rík áhersla á að ná víðtæku samstarfi aðila sem tengjast Íslandshesta-samfélaginu um allan heim og með því tryggja að samræmd skilaboð séu í markaðsstarfinu og aukinn slagkraftur.

Fyrirtækjum og samtökum um heim allan stendur til boða að gerast þátttakendur en 65 þátttakendur eru í verkefninu í dag: fyrirtæki, samtök og félög, þar með talið FHB, LH, sem og íslenska ríkið. Erlendir aðilar taka einnig þátt. Íslandshestasamtökin í Danmörku, Svíþjóð, Bandaríkjunum og Nýja sjálandi eru aðilar að verkefninu og njóta ávinnings af því með notkun á kynningarefni, kynningu á samfélagsmiðlum, aðkomu HOI að viðburðum o.s.frv. Lögð er mikil áhersla á notkun stafrænnar miðlunar, vef og samfélagsmiðla, til að ná sem mestri útbreiðslu um heim allan. Verkefnið hefur byggt upp vefsíðu www.horsesoficeland.is með ítarlegum upplýsingum um íslenska hestinn á fjórum tungumálum, m.a. á sænsku.

Hér má finna nánari upplýsingar um viðburðinn í Danmörku um helgina.

Nánari upplýsingar um HOI veitir Guðný Káradóttir, forstöðumaður hjá Íslandsstofu, gudny@islandsstofa.is, sími 693 3233 eða Jelena Ohm, verkefnastjóri Horses of Iceland jelena@islandsstofa.is, sími 8959170.